Skoðun

Úr vasa heimila

Ásdís Kristjánsdóttir skrifar
Það er fagnaðarefni hve mikil umræða hefur verið um skattamál undanfarið. Hún hefur sérstaklega beinst að skattheimtu lægstu launa. Komið hefur fram að skattbyrði lágmarkslauna hafi aukist á undanförnum árum. Það er rétt enda hefur kapp verið lagt á að hækka lægstu laun í undangengnum kjarasamningum. Vegna uppbyggingar skattkerfis okkar hækkar skattbyrði samfara auknum tekjum að öðru óbreyttu. Lægstu laun voru hækkuð umfram önnur með markmið um að auka kaupmátt ráðstöfunartekna. Það hefur gengið eftir undanfarin ár og gott betur. Frá síðustu kjarasamningum hefur kaupmáttur lágmarkslauna eftir skattgreiðslur vaxið um nærri fjórðung þrátt fyrir aukna skattbyrði.

Aukna skattbyrði lágmarkslauna þarf einnig að setja í samhengi við opinber stuðningskerfi með sínum tekjuskerðingum. Markmið þeirra er að styðja við þá tekjulægri úr sameiginlegum sjóðum. Að teknu tilliti til vaxta- og barnabóta greiða efstu tvær tekjutíundirnar rúmlega 70% af hreinum heildargreiðslum tekjuskatts einstaklinga. Lægstu fimm tekjutíundirnar, helmingur framteljenda, greiða tæplega 1% og lægstu þrjár tekjutíundir fá meira greitt úr ríkissjóði í formi bóta en sem nemur staðgreiðslu tekna þrátt fyrir aukna skattbyrði.

Tökum dæmi um einstætt foreldri með tvö börn, annað undir sjö ára aldri. Hafi sá einstaklingur alla tíð verið með tekjur yfir meðallaunum hafa ráðstöfunartekjur hans, að teknu tilliti til vaxta- og barnabóta, vaxið um 9% að raunvirði frá árinu 2008. Hafi hann verið með tekjur í meðallaunum hafa ráðstöfunartekjur hans eftir skatt- og bótagreiðslur vaxið um 11% en hafi hann verið á lágmarkslaunum hafa ráðstöfunartekjur hans vaxið um 17%. Kaupmáttur tekjulægsta hópsins að teknu tilliti til vaxta- og barnabóta hefur því vaxið hlutfallslega mest á síðustu tíu árum þrátt fyrir aukna skattbyrði.

Á það hefur verið bent að á 10. áratug síðustu aldar hafi lægstu laun verið skattfrjáls. Á sama tíma voru þau líka töluvert lægri, en það er heilbrigðismerki að fleiri launamenn séu farnir að greiða tekjuskatt. Árið 1992 greiddu 60% framteljenda tekjuskatt og er það hlutfall nú orðið 86%, svipað og á Norðurlöndunum. Hækkun þess hlutfalls ætti ekki að koma á óvart. Íslendingar hafa náð gríðarlegum lífskjarabata á síðustu áratugum og er svo komið að nær hvergi eru greidd hærri laun en á Íslandi og hvergi er tekjujöfnuður meiri. Í gagnagrunni OECD má finna samanburð á útgreiddum launum eftir skatt- og bótagreiðslur og eftir að búið er að leiðrétta fyrir verðlagi í hverju ríki. Samkvæmt þeim tölum eru tekjur Íslendinga undir meðallaunum þær fjórðu hæstu meðal ríkja OECD og þriðju hæstu hvort sem horft er til meðaltekna eða tekna yfir meðaltekjum.

Þó það sé mikilvægt að draga fram mynd sem sýnir þróun á skattbyrði þá getur sú mynd ein og sér verið blekkjandi. Almenn sátt er í þjóðfélaginu um að styðja við þá sem hafa minna milli handanna og þurfa á stuðningi að halda. Þess vegna er mikilvægt þegar staða heimila er rædd að horfa til þróunar ráðstöfunartekna eftir skatt- og bótagreiðslur. Á endanum eru það þær tekjur sem svara þeirri spurningu hvort heimilin eru betur sett í dag en áður. Það er eðlilegt að skattbyrði aukist með hærri tekjum, en það er birtingarmynd þeirrar tekjujöfnunar sem innbyggð er í skattkerfi okkar. Um almennar skattahækkanir gilda þó önnur lögmál og er gleðilegt að fleiri láta sig það mál varða og skori á hið opinbera að vinda ofan af þeim skattahækkunum sem gripið var til í síðustu niðursveiflu. Skatttekjur ríkissjóðs hafa aldrei verið meiri og höfum í huga að þær koma úr vösum heimila.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×