Innlent

Eftirlitsmyndavélar settar á Kársnes

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Innbrot hafa verið tíð á Kársnesi.
Innbrot hafa verið tíð á Kársnesi. Vísir/Vilhelm
Bæjarráð Kópavogs samþykkti einróma á fundi sínum í liðinni viku að setja upp eftirlitsmyndavélar á Kársnesi.

„Þetta er gert í samráði við íbúa á svæðinu. Það hefur átt sér stað mikil umræða um tíð innbrot í Facebookhópi þeirra og úr varð að ég lagði þetta til,“ segir Theodóra S. Þorsteinsdóttir, oddviti BF Viðreisnar, um málið.

Þetta eru ekki fyrstu eftirlitsmyndavélarnar sem Kópavogsbær kemur fyrir en slíkt hefur einnig verið gert í Sala- og Lindahverfi. Myndavélarnar eru tvenns konar. Annars vegar yfirlitsmyndavélar og hins vegar vélar sem greina bílnúmer ökutækja sem fram hjá þeim aka. Síðari vélin er tengd við gagnagrunn lögreglunnar og hefur lögreglan ein aðgang að upplýsingunum.

Theodóra segir að málið hafi verið unnið í nánu samstarfi við embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Persónuvernd. Þá hvöttu íbúar bæjarfélagsins til uppsetningar á eftirlitsmyndavélum í íbúakosningunni Okkar Kópavogur fyrir tveimur árum.

„Það hefur verið skortur á löggæslu á þessu svæði í Kópavogi. Þetta er viðleitni í að uppræta þessa innbrotahrinu sem hefur verið í gangi þarna,“ segir Theodóra.

Gert er ráð fyrir að fimm myndavélum verði komið fyrir. Kostnaður við uppsetningu er áætlaður á bilinu sjö til tíu milljónir og árlegur rekstrarkostnaður tæp milljón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×