Einn þingmanna sem þótti innkoma Klaustursmanna óþægileg var mennta- og menningarmálaráðherrann Lilja Alfreðsdóttir. Hún gekk að Gunnari Braga þar sem hann sat í sæti sínu og hélt yfir honum tölu áður en hún gekk úr þingsal.
Málefni þingsins og vinnufriður þess var til umræðu á þingflokksformannafundi síðdegis. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður VG, sagði fundinn hafa tekið um hálftíma og verið afar yfirvegaðan þar sem farið var skipulega yfir hvernig ná mætti starfsfriði og keyra áfram þingstörfin. „Við munum svo aftur fara yfir stöðuna á mánudaginn. Við erum ekki að ræða málefni einstakra þingmanna heldur aðeins umhugað um að þingstörf geti gengið hér áfram,“ segir Bjarkey.

„Bergþór kemur og hefur rétt til að ganga inn í nefndina og rétt til að taka sitt sæti sem hann hafði. Við getum ekki sagt nei. Málið er að hann er þarna samkvæmt samkomulagi minnihlutaflokkanna,“ segir Ari Trausti Guðmundsson, annar þingmanna VG í nefndinni. „Þau fengu þrjá formenn nefnda eftir ákveðnu samkomulagi og því er það þeirra að leysa þetta mál og nú hefur bæði fulltrúi Viðreisnar og Samfylkingar og einnig fulltrúi Vinstri grænna lýst yfir að þau vilji ekki að hann leiði þetta áfram og það er honum alveg ljóst.“
Ari Trausti segir nokkra möguleika í stöðunni en að minnihlutaflokkarnir verði að leysa málið sín á milli. „Við þurfum ekkert að kjósa því ef minnihlutinn ræðir saman þá getur hann stigið til hliðar og einhver annar úr Miðflokknum komið inn í hans stað,“ segir Ari. „Við í meirihlutanum erum í raun og veru ekki að vasast með þetta mál, þetta er í höndum minnihlutans. En þetta verður rætt í hópi þingflokksformanna á mánudag.“