Erlent

Fangelsaður vegna viðtals við samkynhneigðan mann

Andri Eysteinsson skrifar
Mohamed al-Ghiety, eigandi sjónvarpsstöðvarinnar LTC TV í Egyptalandi var dæmdur fyrir viðtal.
Mohamed al-Ghiety, eigandi sjónvarpsstöðvarinnar LTC TV í Egyptalandi var dæmdur fyrir viðtal. YouTube/LTC TV
Egypskur sjónvarpsmaður, Mohamed al-Ghiety, hefur verið dæmdur til eins árs þrælkunarvinnu fyrir að hafa tekið samkynhneigðan mann í viðtal á sjónvarpsstöð sinni LTC TV.

Al-Ghiety var einnig sektaður um það sem nemur 20.000kr fyrir að koma samkynhneigð á framfæri. Viðtalið fór fram í ágúst á síðasta ári og ræddi al-Ghiety við manninn um kynhneigð hans og störf í kynlífsiðnaðnum. Andlit mannsins var hulið svo ekki kæmist upp um hann.

Samkvæmt frétt BBC ákærði lögfræðingur að nafni Samir Sabry, sem þekktur er í Egyptalandi fyrir að lögsækja „fræga fólkið“, al-Ghiety fyrir að hafa reynt að hagnast á því að kynna samkynhneigð í sjónvarpi.

Auk þess að hafa verið dæmdur til fangelsisvistar og sektar mun al-Ghiety vera undir eftirliti í eitt ár eftir að honum verður sleppt úr fangelsi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×