Erlent

Vilja rafvæða norska ferjuflotann fyrir 2025

Kristján Már Unnarsson skrifar
Nýjasta rafmagnsferjan "Kommandøren“ á siglingu þvert yfir Sognfjörð milli hafnanna Mannheller og Fodnes,
Nýjasta rafmagnsferjan "Kommandøren“ á siglingu þvert yfir Sognfjörð milli hafnanna Mannheller og Fodnes, Mynd/Fjord1.
Norsk stjórnvöld vilja losna við mengandi dísilferjur af norsku fjörðunum innan sex ára. 

„Markmiðið er að rafvæða allan ferjuflotann fyrir árið 2025,“ sagði Atle Hamar, pólitískur ráðuneytisstjóri loftslags- og umhverfisráðuneytis Noregs, í viðtali við NRK í vikunni, í tilefni þess að nýjasta rafferjan „Kommandøren“ var tekin í notkun á Innri-Sognfirði á leiðinni sem tengir bæina Kaupanger og Lærdal.

„Kommandøren“ siglir þó fyrst um sinn á lífdísil en verður fljótlega að fullu rafknúinn. Ferjan er þróuð út frá reynslunni sem fengist hefur af „Ampere“, fyrstu stóru rafferju heims, sem hóf siglingar á Ytri-Sognfirði fyrir fjórum árum, en þá var sagt frá henni í fréttum Stöðvar 2.

Fyrsta norska rafferjan Ampere á siglingu á Sognfirði sumarið 2015.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Rétt eins og „Ampere“ er nýja ferjan smíðuð úr áli en þannig verður hún helmingi léttari en sambærileg ferja úr stáli. Málmskiptin úr stáli yfir í ál minnka orkunotkun um helming. 

Norska ríkisstjórnin stefnir að því að kynna áætlun fyrir páska um hvernig norski skipaflotinn verður gerður umhverfisvænni, og nær áætlunin einnig til ferja og farþegabáta. 

Í Noregi eru alls 130 ferjuleiðir með samtals um 200 ferjum. Norskir ráðamenn vonast til þess að fyrir árslok 2021 verði yfir 70 ferjur orðnar rafknúnar. 

Fjord1-skipafélagið, sem rekur „Kommandøren“, er komið með átta tvinnferjur í rekstur og tvær sem alfarið eru rafdrifnar. Norled-skipafélagið, sem ruddi brautina með „Ampere“, er núna komið með átta rafmagnsferjur.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2 um fyrstu rafferju Noregs:


Tengdar fréttir

Álskip og repjurækt kolefnislosi flotann

Repjuolía og álskip samhliða rafvæðingu ættu að verða næstu skref Íslendinga til að minnka kolefnislosun skipaflotans, að mati ráðgjafahóps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×