Skoðun

Hristum upp í vinnutímamódelinu

Þórir Garðarsson skrifar
Sífellt er gerð meiri krafa um þjónustu stóran hluta sólarhringsins. Þjónustustörfum hefur fjölgað verulega. Viðmið kjarasamninga um dagvinnutíma hafa hins vegar ekki breyst. Fyrir vikið er skekkja í launasambandi vinnuveitenda og þeirra sem starfa mikið utan hefðbundins dagvinnutíma. Þetta er skekkja sem kemur hvorugum til góða en það ætlar að reynast þrautin þyngri að leiðrétta hana.

Mjög margir í þjónustustörfum, t.d. í ferðaþjónustunni, vinna ekki aðeins milli klukkan 8-17. Kjarasamningar ganga hins vegar út á að á því tímabili séu greidd dagvinnulaun og utan þess álagsgreiðslur sem eru mun hærri hér en t.d. almennt gerist á Norðurlöndunum. Fyrir vikið er hlutfall dagvinnulauna lágt af heildar launagreiðslum flestra. Þeir sem hins vegar aðeins vinna þjónustustörf milli klukkan 8-17 bera skarðan hlut frá borði vegna þessa ójafnvægis.

Hærri grunnlaun, lægri álagsgreiðslur

Ég átti sæti í stjórn Samtaka atvinnulífsins árið 2015 og beitti mér þá fyrir því að farið yrði í breytingar á vinnutímaákvæðum kjarasamninga. Hugmyndin var að grunnlaun yrðu hækkuð verulega og á móti kæmi lækkun álagsgreiðsla og sveigjanlegri vinnutími. Gerð var bókun milli aðila kjarasamninga um að stefna að breytingum á skilgreindum vinnutíma og nálgast það skipulag vinnutíma sem algengast er á Norðurlöndunum.

Þrátt fyrir ágætan skilning margra á ávinningi þess að færa okkur nær Norðurlöndunum í þessum efnum hefur ekkert breyst. Haldið er fast í hina gömlu skilgreiningu á dagvinnutíma og háar álagsgreiðslur utan hans. Slík afmörkun gat átt við þegar flest störf voru innt af hendi að degi til virka daga og lítið var um þjónustu seinni hluta dags, á kvöldin eða um helgar. En þjóðfélagið er gjörbreytt hvað þetta varðar. Vinnutímaákvæðin endurspegla það hins vegar ekki. Þröng skilgreiningu á þeim heldur grunnlaunum niðri, hvetur til yfirvinnu og lengir þar með vinnutíma. Það er í æpandi mótsögn við áform um að reyna að stytta vinnutímann.



Horfum á vinnuframlagið fremur en klukkuna

Breyting á vinnutímaákvæði kjarasamninga hefur ekki aðeins þau jákvæðu áhrif að grunnlaun hækki og starfsfólk þurfi síður að treysta á álagsgreiðslur. Með minni pressu á að sem flest störf séu innt af hendi milli kl. 8-17 vegna ákvæða kjarasamning léttir á umferð morgna og síðdegis. Samverustundum foreldra og barna getur fjölgað með breytilegum vinnutíma foreldra. Launþegar og vinnuveitendur hefðu miklu meiri sveigjanleika um upphaf og endi vinnutíma. Þeir sem vilja gætu ýmist byrjað fyrr að vinna á morgnanna eða síðar um daginn eða jafnvel unnið tvo langa vinnudaga í viku og tvo stutta ef það hentar. Lykillinn að breytingunni er að grunnlaun endurspegli vinnuframlagið fremur en klukkan hvað vinnan fer fram.

Við Íslendingar hefðum gott af því að hrista aðeins upp í kerfinu. Það gæti skilað okkur meiri framleiðni, styttri vinnutíma og fjölskylduvænni vinnumarkaði líkt og hjá frændum okkar á Norðurlöndunum.



Höfundur er stjórnarformaður Gray Line




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×