Erlent

Frakkar í hart gegn óeirðaseggjum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Mótmælandi, ef til vill óeirðaseggur að mati yfirvalda.
Mótmælandi, ef til vill óeirðaseggur að mati yfirvalda. Nordicphotos/AFP
Stjórnarþingmenn í Frakklandi hafa lagt fram frumvarp sem myndi meina mótmælendum að hylja andlit sitt og færa lögreglu aukið frelsi til þess að fjarlægja þá af vettvangi.

Reuters greindi frá málinu í gær og sagði frumvarpið lið í aðgerðum Emmanuel Macron forseta gegn ofbeldismönnum sem hafa tekið þátt í mótmælum hinna svokölluðu Gulu vesta og stórskemmt eignir. Alls hafa tíu látist í mótmælaöldunni og nærri 3.000 slasast. Með því að banna mótmælendum að hylja andlit sín er vonast til þess að hægt sé að nota tæknina til að bera kennsl á þá sem grunaðir eru um lögbrot.

Cristophe Castaner innanríkisráðherra hvatti þingheim í gær til að „stöðva þessa óeirðaseggi sem ómögulegt er að rökræða við“. Frumvarpið á þó sína andstæðinga á þingi sem telja það ganga of langt og þannig skerða frelsi Frakka.

Aurore Berger, upplýsingafulltrúi LREM, flokks Macron, sagðist ósammála því. Flokkurinn væri ekki að skerða frelsi heldur tryggja það. „Við erum ekki að tala um hvaða Frakka sem er heldur þá sem hafa skaðað aðra, þá sem vilja drepa og skemma.“

Flokkur forsetans er með meirihluta á þingi og því er talið nærri öruggt að frumvarpið verði að lögum. Búist er við því að það gerist eftir helgina.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×