Lögregla í Bergen í Noregi hefur handtekið tíu manns eftir að 25 ára karlmaður var stunginn til bana í gærkvöldi.
Trond Eide, talsmaður norsku lögreglunnar, segir í samtali við NRK að níu hinna handteknu séu grunaðir um líkamsárás og einn um morð. Byggi það á samtölum lögreglu við sjónarvotta og mynda úr öryggismyndavélum.
Tilkynning um slagsmál við bensínstöð við Danmarks plass kom inn á borð lögreglunnar um um klukkan 21:30 í gærkvöldi. Hinn látni hafði þá ítrekað verið stunginn í bringuna og var hann úrskurðaður látinn á Haukeland-háskólasjúkrahúsinu síðar um kvöldið.
Sá sem grunaður er um morðið er fæddur árið 1997, en hinir handteknu eru allir á þrítugsaldri.
Erlent