Erlent

Kynferðisbrotakrísa í Síerra Leóne

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Julius Maada Bio, forseti Síerra Leóne.
Julius Maada Bio, forseti Síerra Leóne.
Julius Maada Bio, forseti Síerra Leóne, lýsti í gær yfir neyðarástandi í landinu vegna kynferðisofbeldisfaraldurs. BBC greindi frá þessu en almenningur í Afríkuríkinu er í losti og hefur kallað eftir róttækum aðgerðum undanfarna daga.

Á blaðamannafundi í Freetown hlýddi forsetinn á þolanda kynferðisofbeldis lýsa reynslu sinni. Að ræðu lokinni lýsti hann því yfir að neyðarástandi yrði komið á.

„Þegar í stað verður viðurlögum við barnaníði breytt þannig að lífstíðarfangelsi er við slíkum brotum,“ sagði Bio og bætti því við að sérstök deild lögreglu yrði stofnuð til þess að rannsaka kynferðisofbeldi sem og nýr dómstóll sem ætti að geta afgreitt slík mál með hraði.

Kærð kynferðisofbeldismál voru tvöfalt f leiri í Síerra Leóne á síðasta ári en árið 2017. Samkvæmt BBC hefur reiði almennings aukist með hverju broti.

Eitt alvarlegasta málið, og það sem fékk einna mesta umfjöllun, snerist um fimm ára stúlku sem lamaðist eftir meint kynferðisbrot frænda síns. Aðgerðasinnar í landinu benda á að afar lítill hluti brota sé kærður til lögreglu og að í enn færri málum sé ákært.

Þá sé þeirri refsingu sem mælt er með, fimm til fimmtán ára fangelsi, sjaldan beitt. Til að mynda fékk 56 ára maður sem nauðgaði sex ára stúlku einungis eins árs fangelsisdóm á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×