Sport

Lögreglan réðst inn á hótel liða á HM í skíðagöngu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Max Hauke er einn hinna handteknu.
Max Hauke er einn hinna handteknu. Getty/Ian MacNicol
Þýskir, austurrískir og norskir fjölmiðlar eru meðal þeirra sem segja frá víðtækri aðgerð austurrísku lögreglunnar á heimsmeistaramótinu í skíðagöngu sem stendur nú yfir í Seefeld í Austurríki.

Málið tengist ólöglegri lyfjanotkun og íþróttalækni sem hefur aðstöðu í Erfurt í Þýskalandi.





Húsleit var líka gerð á stofu hans á sama tíma sem og á fleiri stöðum í Þýskalandi. Umræddur læknir hefur áður verið fundinn sekur um að aðstoða við ólöglega lyfjanotkun íþróttafólks.

Mesta athygli vakti þó heimsókn lögreglunnar á hótel nokkurra liða sem eru að keppa á HM í Skíðagöngu.

Hajo Seppelt, virtur blaðamaður sem vinnur hjá  ARD sjónvarpsstöðinni í Þýskalandi og hefur skrifað mikið um lyfjamál, sagði frá rassíunni á Twitter-síðu sinni.





Hajo Seppelt hefur heimildir fyrir því að þetta mál tengist austurríska íþróttamanninum Johannes Dürr og heimildarmynd ARD um ólöglega lyfjanotkun hans sem hét „Die Gier nach Gold“ eða "Græðgin við að ná í gullið“. Hún var frumsýnd í síðasta mánuði.

Lögreglan réðst inn á hótel liða sem keppa á HM í skíðagöngu og handtók alls níu manns. Fimm af þeim voru keppendur á heimsmeistaramótinu.

Austurríska blaðið Kronen Zeitung segir frá því að tveir af handteknu séu austurrísku skíðagöngumennirnir Dominik Baldauf og Max Hauke en Hauke átti að keppa í 15 kílómetra göngu í dag.

Alls hafa verið sextán húsleitir í tengslum við þetta skipulagða lyfjamisferli sem var gert út frá Erfurt.

Keppendurnir fimm eru sagðir koma frá Austurríki (2), Kasakstan og Eistlandi (2).

Áhlaup austurrísku lögreglunnar var vel skipulagt og fór fram á sama tíma á öllum stöðum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×