Innlent

Boðað til fundar í flokksráði Miðflokksins í mars

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Þingflokkur Miðflokksins styrktist um tvo menn í gær þegar Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason gengu til liðs við flokkinn.
Þingflokkur Miðflokksins styrktist um tvo menn í gær þegar Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason gengu til liðs við flokkinn. Fréttablaðið/ERNIR
Flokksráð Miðflokksins kemur saman 30. mars í Suð­vestur­kjördæmi. Það var Birgir Þórarinsson, einn þingmanna flokksins, sem óskaði eftir fundi í flokksráði í því skyni að stokka upp í skipan trúnaðarstarfa í þingflokknum.

Miðflokkurinn virðist annars hafa mikinn vind í seglin þrátt fyrir að enn sé stutt liðið frá fjaðrafokinu í kringum upptökurnar á Klaustri. Unnið er að stofnun ungliðahreyfingar í flokknum, „UNGIR X-M“ og mun hreyfingin funda í fyrsta sinn um komandi helgi.

Þá bættust tveir nýir þingmenn við þingflokk flokksins í gær, Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason. Var þingflokkurinn áberandi í þingstörfum í gær. Röðuðu allir níu þingmenn flokksins sér á mælendaskrá í umræðu um frumvarp fjármálaráðherra um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

Aðrir þingmenn blönduðu sér lítt í umræðuna en þó kom til snarpra orðaskipta milli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Smára McCarthy­, þingmanns Pírata, en sá síðarnefndi lýsti efasemdum um heilindi þingmanna Miðflokksins í umræðu um málið.

Sigmundur Davíð brást illa við ummælum þingmannsins og sagði Smára fara með meiðyrði og eðlilegt væri að vísa ummælunum til siðanefndar þingsins.

Þingmenn Miðflokksins voru enn að ræða frumvarpið í þingsal þegar blaðið fór í prentun.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×