Skoðun

Fæðingarorlofssjóður ætti að greiða mótframlag í séreign

Björn Berg Gunnarsson skrifar
Við ákvörðun um töku fæðingarorlofs er að mörgu að hyggja. Til dæmis þarf að taka tillit til hinna ýmsu atriða á fjármálahliðinni. Það skiptir ekki eingöngu máli hversu lengi við viljum vera heima, líta þarf til þeirra áhrifa sem orlofstaka kemur til með að hafa á tekjur heimilisins. Þessu velta þúsundir íslenskra foreldra fyrir sér árlega og útkoman er sú að mikill munur er á orlofstöku kynjanna. Það sem meira er, munurinn eykst ár frá ári og hefur hlutfall orlofsdaga karla af orlofsdögum kvenna snarminnkað og er nú vel innan við helmingur.

Árið 2008 var um fimmtungur karlmanna lengur en 90 daga í orlofi, en 93% kvenna. Árið 2017 var þetta hlutfall 95% hjá konum en hafði fallið í 10% hjá körlunum eftir nær stöðuga lækkun á tímabilinu. Hlutfall þeirra feðra sem taka sér orlof undir 90 daga grunnréttindunum hafði á sama tíma tvöfaldast og í stað 90% fyrir áratug nýta einungis 77% feðra orlofsrétt sinn að einhverju leyti.

Þessi ólíka orlofstaka kynjanna hefur í för með sér áhrif á fjármál kvenna sem mætti fá meiri athygli. Við söfnum nefnilega aðskildum lífeyrisréttindum, þó fjármál heimilisins geti verið sameiginleg. Þar sem greiðslur Fæðingarorlofssjóðs eru minni en sem nemur launum okkar lækkar sú upphæð sem greidd er í lífeyrissjóð á meðan við erum í orlofi. Enn meiri eru svo áhrifin á séreignarsparnað þar sem sjóðurinn greiðir einhverra hluta vegna ekki mótframlag. Í fæðingarorlofi geta foreldrar því orðið af umtalsverðum lífeyrisréttindum í framtíð og hallar þar mjög á konur vegna lengri orlofstöku.

Mótframlag í séreignarsparnað væri hægt að nýta til skattfrjálsrar ráðstöfunar við kaup eða afborgun á húsnæði eða ávaxta til efri áranna. Sé miðað við greiðslur ársins 2017 mætti áætla að kostnaður við slíkt væri yfir 200 milljónir króna á ári en verðmætið fyrir ungt fólk í fæðingarorlofi leyfi ég mér að fullyrða að sé mun meira.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×