Innlent

Skrifstofu Útlendingastofnunar lokað vegna mótmæla

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmælandi ræðir við lögreglumann fyrir utan húsnæði
Mótmælandi ræðir við lögreglumann fyrir utan húsnæði Vísir/Vilhelm
Nokkrir tugir hælisleitenda færðu mótmæli gegn aðbúnaði sínum sem hófust í morgun að skrifstofu Útlendingastofnunar að Dalvegi í Kópavogi nú eftir hádegi. Ljósmyndari Vísis sem var á staðnum segir að fjöldi lögreglumanna hafi fylgst með mótmælunum sem fóru friðsamlega fram og að skrifstofunni hafi verið lokað vegna þeirra.

Mótmælin hófust fyrir utan húsnæði stofnunarinnar í Bæjarhrauni í Hafnarfirði í morgun. Hælisleitendurnir mótmæltu þar aðstæðum sínum og kröfðust þess að brottvísunum væri hætt, flóttamannabúðum að Ásbrú yrði lokað og að allir hælisleitendur fái sanngjarna meðferð á umsókn sinni um atvinnuleyfis og aðgengis að heilbrigðisþjónustu.

Að sögn ljósmyndara Vísis á staðnum lauk mótmælunum rétt um klukkan tvö í dag. Mótmælin hafi farið friðsamlega fram en hælisleitendurnir hafi barið á trommur, hrópað slagorð og sungið. Enginn frá Útlendingastofnun hafi komið út til að ræða við þá.

Þórhildur Ósk Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, segir að ákveðið hafi verið að loka skrifstofunni í hádeginu í samráði við lögreglu. Skrifstofan lokar alla jafna klukkan 14:00 á daginn og verður hún því ekki opnuð aftur fyrr en í fyrramálið.

Mótmælendurnir mættu með borða og trommur að skrifstofu Útlendingastofnunar í Kópavogi. Mótmælin fóru friðsamlega fram.Vísir/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×