Innlent

Prófessor greiði skatt af kennslu á Indlandi þar og hér heima

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Maðurinn starfaði sem gestaprófessor, þó sem launamaður, erlendis hluta ársins 2017.
Maðurinn starfaði sem gestaprófessor, þó sem launamaður, erlendis hluta ársins 2017.
Maður sem starfaði sem gestaprófessor í Indlandi árið 2017 þarf að greiða skatta af tekjum sínum vegna starfsins bæði þar ytra og hér heima. Þetta er niðurstaða yfirskattanefndar (YSKN).

Maðurinn starfaði sem gestaprófessor, þó sem launamaður, erlendis hluta ársins 2017. Vegna þessa taldi hann fram á skattframtali sínu tekjur upp á rúmlega 10 milljónir króna. Bættust þær við tæplega 18,5 milljónir sem hann hafði hér heima.

Kennarinn gaf tekjur sínar upp erlendis og greiddi þar af þeim skatt. Taldi hann að þar sem í gildi væri tvísköttunarsamningur milli Íslands og Indlands bæri honum ekki að greiða skatt af þeim aftur hér á landi. Ríkisskattstjóri (RSK) taldi á móti að ekki bæri að greiða skatt af þeim erlendis heldur skyldu þær skattlagðar hér heima þar sem viðkomandi hefði skattalega heimilisfesti á Íslandi.

YSKN staðfesti niðurstöðu RSK með þeirri athugasemd að skattaleg meðferð ytra gæti ekki haft áhrif hér heima. Tvísköttunarsamningurinn hefði þó að geyma sérstök úrræði ef hann telur skattlagningu ekki í samræmi við samninginn. Geti gjaldandi þá lagt málið fyrir bært stjórnvald í því samningsríki þar sem hann er heimilisfastur. Leysi bært stjórnvald ekki úr málinu á viðunandi hátt skuli leitast við að leysa málið með samkomulagi við bært stjórnvald í hinu samningsríkinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×