Innlent

Foss­vogs­skóli: Frekari ó­vissa eftir að raka­skemmdir fundust í Fann­borg 2

Atli Ísleifsson skrifar
Gríðarmiklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar í Fossvogsskóla vegna myglunnar en þar þarf að rífa þak, loft og veggi.
Gríðarmiklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar í Fossvogsskóla vegna myglunnar en þar þarf að rífa þak, loft og veggi. vísir/vilhelm

Enn er óvissa um hvert nemendur í Fossvogsskóla munu sækja nám á mánudag eftir að rakaskemmdir fundust í húsnæði í Fannborg 2 í Kópavogi í dag þar sem til stóð að flytja skólastarfið fram á sumar.



Greint var frá því um síðustu helgi að Fossvogsskóla yrði lokað frá og með næsta fimmtudegi vegna myglu. Þurfa því 350 nemendur skólans að sækja skóla annað fram á sumar.



Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, segir í samtali við Vísi að fulltrúar borgarinnar hafi farið með fulltrúum Heilbrigðiseftirlits Kópavogs í húsnæðið í Fannborginni fyrr í dag. „Við sáum við ummerki eftir leka í gluggum og stöku stað í vegg. Eðlilega, til að hafa vaðið fyrir neðan okkur, pöntuðum við sýnatöku hjá Verkís til að hjálpa okkur með þetta. Við viljum ekki taka neina sénsa við val á húsnæði fyrir skólastarfið.“

Aðrir möguleikar skoðaðir

Helgi segir að Fannborg 2 verði áfram til skoðunar, auk þess að leitað verði annarra möguleika. Áætlað er að skoðun Verkís komi til með að taka um fimm daga, þannig að niðurstaða ætti að liggja fyrir í lok dags á mánudag.

 



Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur.

Skipulagsdagar eru í Fossvogsskóla á morgun og föstudag og er áætlað að skólastarf hefjist á mánudag. Staðsetningin liggi því ekki endanlega fyrir. „Það má segja að það sé seinkun á vélinni,“ segir Helgi.

Vel sóttur fundur með foreldrum

Fundur var með foreldrum nemenda í Fossvogsskóla í húsnæði Réttarholtsskóla nú síðdegis. „Það var fullur skilningur á þessu hjá foreldrum. Við viljum hafa vaðið fyrir neðan okkur. Við upplýsum foreldra jafnóðum og þetta var vel sóttur og góður fundur. Það er mikilvægt að fólk geti spurt og fengið allar upplýsingar frá þar til bærum aðilum.“



Gríðarmiklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar í Fossvogsskóla vegna myglunnar en þar þarf að rífa þak, loft og veggi. Fyrirhugað er að skólastarfið hefjist þar aftur í haust.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×