Innlent

Tæp 95 prósent vilja bólusetningarskyldu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Af svarendum reyndust rúm 94 prósent frekar eða mjög hlynnt því að slík skylda yrði lögfest, tæp þrjú prósent sögðust hlutlaus og um þrjú prósent því frekar eða mjög andvíg.
Af svarendum reyndust rúm 94 prósent frekar eða mjög hlynnt því að slík skylda yrði lögfest, tæp þrjú prósent sögðust hlutlaus og um þrjú prósent því frekar eða mjög andvíg. vísir/getty
Rúmlega níu af hverjum tíu Íslendingum eru á því að skylda til bólusetningar barna verði leidd í lög eða bólusetning gerð að skilyrði fyrir inntöku á leikskóla. Þetta sýna niðurstöður könnunar Zenter rannsókna.

Af svarendum reyndust rúm 94 prósent frekar eða mjög hlynnt því að slík skylda yrði lögfest, tæp þrjú prósent sögðust hlutlaus og um þrjú prósent því frekar eða mjög andvíg. Þrjú af hverjum fjórum sögðust mjög hlynnt slíkri skyldu.

Örlítið minni stuðningur reyndist við það að bólusetning við mislingum yrði gerð að skilyrði fyrir inntöku barns á leikskóla. Rúmlega níu af hverjum tíu reyndust hlynnt því, 3,4 prósent hlutlaus og rúm fimm prósent andvíg. Í báðum tilvikum mældist stuðningur minnstur hjá þeim sem lokið höfðu framhaldsprófi í háskóla en þó var hann í um níutíu prósent hjá þeim hópi.

„Það er ekki hægt að segja að við stöndum okkur illa í bólusetningum þó við gætum gert betur,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Embætti landlæknis stefnir að því að hlutfall bólusettra sé yfir 95 prósent en það hefur verið á bilinu 90-95 prósent.

„Ástæðan er að öllum líkindum innköllunarkerfi heilsugæslunnar. Ég hef sagt að við ættum að laga það og sjá hverju það skilar áður en við ræðum um skyldu til bólusetninga,“ segir Þórólfur.

Læknirinn segir að aðeins örlítill hópur fólks sé andsnúinn bólusetningum en rannsóknir bendi til þess að það séu um tvö prósent. Hann óttast að bólusetningarskylda geti stækkað þann hóp.

Könnunin var netkönnun framkvæmd 8.-11. mars. Úrtakið var 2.500 einstaklingar og svöruðu 1.146.

Gögnin voru vigtuð eftir kyni, búsetu og aldri til að endurspegla sem best álit landsmanna á viðfangsefninu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×