Innlent

Aukin upp­lýsinga­skylda lögð á herðar Al­þingis og dóm­stóla

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Alþingi hefur hingað til verið undanþegið upplýsingalögum.
Alþingi hefur hingað til verið undanþegið upplýsingalögum.
Hingað til hafa Alþingi og dómstólar verið undanþegin ákvæðum upplýsingalaga. Það þýðir meðal annars að erfiðara er að óska eftir gögnum frá þessum stofnunum á grundvelli laganna. Þetta gæti breyst ef frumvarp um breytingar á upplýsingalögum nær fram að ganga.

Ríkisstjórnin samþykkti í gær frumvarp Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, um breytingar á lögunum. Stefnt er á að leggja frumvarpið fram á Alþingi fyrir mánaðarmót.

Markmið frumvarpsins er að auka gagnsæi í stjórnsýslunni.

„Stóra breytingin er annars vegar sú að lögin taki til Alþingis og dómstóla,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. „Það er auðvitað stór breyting. Þannig mætti segja að það gildi sömu efnisreglur hvað þessar greinar ríkisvaldsins varðar sem hingað til hafa gilt um framkvæmdavaldið.“

Einnig er kveðið skýrar á um skyldu ráðuneyta til að birta upplýsingar úr málaskrám að eigin frumkvæði. Sérstakur ráðgjafi mun taka til starfa samhliða úrskurðarnefnd upplýsingamála með það að markmiði að bæta upplýsingamiðlun og hraða afgreiðslu mála.

 „Verði þetta samþykkt erum við að feta í fótspor Norðmanna sem hafa staðið mjög framarlega í upplýsingarétti,“ segir Katrín. „Þetta kallar auðvitað á aukna vinnu ráðuneytanna en á sama tíma ætti þetta að auka gagnsæi um alla stjórnsýsluna.“


Tengdar fréttir

Upplýsingagjöf hins opinbera í vítahring vantrausts

Tregða stjórnvalda til að veita fjölmiðlum og almenningi upplýsingar er meðal ástæðna vantrausts á íslenskum stjórnvöldum að mati starfhóps um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu, sem kynnti niðurstöður sínar í gær.

Víkka út rétt til upplýsinga

Starfshópur um traust á stjórnmálum og stjórnsýslu hefur skilað skýrslu til forsætisráðherra og kynnir niðurstöður sínar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×