Tom Joel hrósar leikmönnum Íslands í hástert fyrir vinnubrögð sín á æfingum síðustu daga. Joel tók nýverið við starfi styrktarþjálfara hjá KSÍ og er nú í sínu fyrsta verkefni með landsliði karla.
„Allt sem ég hef lært um þá í gegnum fjölmiðla og það sem ég hafði séð til þerra þá hafa þeir staðist allar mínar væntingar í þessum æfingabúðum hingað til. Þetta eru virkilega indælir drengir - jarðbundnir og hógværir. En líka vinnusamir sem er gott fyrir mig,“ sagði Joel í samtali við íþróttadeild.
Margir leikmanna Íslands spila á Bretlandseyjum eða hafa verið þar áður á sínum ferli, og Joel segir að það komi í ljós á æfingunum.
„Þeir nálgast allt mjög fagmannalega og miðað við væntingar og gæði þá er það allt mjög gott,“ sagði hann.
Joel hefur starfað hjá Leicester í átta ár og hann var því í miðri hringiðunni þegar liðið varð öllum að óvörum Englandsmeistari árið 2016. En fyrst Leicester gat orðið Englandsmeistari, getur Ísland orðið Evrópumeistari?
„Fyrst að Leicester vann getur allt gerst. Ísland á vissulega möguleika, kannski eru líkurnar aðeins betri en fimm þúsund á móti einum.“
Vísir fylgir eftir strákunum okkar á leið þeirra á lokakeppni EM 2020 í knattspyrnu. Stöð 2 Sport sýnir fjölda leikja í undankeppninni næstu daga, fylgstu með dagskránni á stod2.is.
Fótbolti