Innlent

Þjóðleikhúsið sér sóknarfæri fyrir Super 1

Ari Brynjólfsson skrifar
Atli Þór Albertsson, markaðsstjóri Þjóðleikhússins.
Atli Þór Albertsson, markaðsstjóri Þjóðleikhússins.
Markaðsdeild Þjóðleikhússins segir það hreina tilviljun að leikrit um stórmarkaðinn Súper komi á fjalirnar á svipuðum tíma og verslunin Super 1 er opnuð. Líklega gangi markaðssetningin á leikritinu lengra því fólk sé að leita að uppskálduðum tilboðum í versluninni.

Markaðssetningin fyrir leikritið Súper snýst um að auglýsa fáránleg tilboð, til dæmis „hægsvæfða spena­grísi á teini“. Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson, eigandi Super 1, sagði í Fréttablaðinu á laugardag að það hefði verið fyndið í fyrstu er viðskiptavinir spurðu um lundir af nýsvæfðum grísum. En nú markaðssetningin sé áreiti á starfsfólk hans.

Atli Þór Albertsson, markaðsstjóri Þjóðleikhússins, segir það merkilega tilviljun að verslunin Super 1 hafi verið opnuð eftir að Jón Gnarr hafi skrifað leikrit með sama nafni.

„En ég viðurkenni að mér hafi fundist það fyndið þegar ég frétti að hann væri að taka við símtölum frá fólki sem er ósátt við orðalag í auglýsingu sem kemur honum ekki við. Og enn fyndnara að fólk sé að leita að uppskálduðum tilboðum í Super 1, það segir mér að það er opinn markaður fyrir talsvert fleiri hluti en maður telur eðlilegt,“ segir Atli Þór.

„Fyrir vikið finnst mér líklegra að við gefum í og göngum lengra. Sigurður verður bara að vonast til að leikritið verði skammlíft eða skella hreinlega í gott kokteilsósutilboð og sjá sóknarfærin í þessu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×