Erlent

Viðurkenna ábyrgð á dauða almennra borgara eftir drónaárás

Andri Eysteinsson skrifar
Frá vettvangi bílsprengju í Sómalíu
Frá vettvangi bílsprengju í Sómalíu Getty/Anadolu Agency
Hernaðaryfirvöld í Bandaríkjunum hafa játað hafa valdið dauða konu og barns hennar í loftárás dróna í Sómalíu fyrir ári síðan. Samkvæmt opinberum tölum hafa 110 loftárásir verið gerðar gegn al-Shabab í landinu á síðustu tveimur árum. Aðgerðir gegn al-Shabab hófust þó á stjórnartíð Barack Obama árið 2011. BBC greinir frá.

Bandaríkin höfðu fyrir nokkrum vikum hafnað þeim staðhæfingum mannréttindasamtakanna Amnesty International að 14 óbreyttir borgarar hafi látist í fimm loftárásum í Sómalíu. Bandaríkin höfðu haldið því fram að 800 hafi látist í loftárásum hersins, allt vígamenn.

Annað hefur nú komið á daginn. Niðurstöður rannsóknar innra eftirlits Bandaríkjahers voru kynntar á blaðamannafundi í dag. Þar viðurkenndu hernaðaryfirvöld að kona og barn hafi látist í loftárás sem gerð var í apríl í fyrra, í árásinni létust, auk mæðginanna, fjórir vígamenn al-Shabab.

Amnesty International sagði að viðurkenning Bandaríkjanna væri mikilvægt skref fram á við en væri enn bara fyrsta skrefið.

„Fjölskylda þeirra sem létust mun ekki finna neina huggun í þessari viðurkenningu Bandaríkjanna“ sagði Daphne Eviatar hjá Bandaríkjadeild Amnesty við BBC.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×