Sumarbráðnun íss á Grænlandi er þegar hafin og er það sagt rúmum mánuði fyrr en í venjulegi árferði. Hiti á suðausturströnd Grænlands hefur farið allt að tuttugu stigum yfir meðaltal síðustu vikur.
Vanalega byrjar Grænlandsjökull ekki að bráðna fyrr en í maí en í vor mældist fyrst bráðnun 7. apríl, að því er segir í frétt Washington Post. Loftihiti hækkaði skyndilega upp í 5°C eftir að meira en tuttugu stiga frost hafði verið þar í byrjun mánaðar. Í kjölfarið kólnaði aðeins aftur en síðustu vikuna hefur hitinn verið um eða yfir frostmarki.
Snjó- og ísgagnamiðstöð Bandaríkjanna segir að hraði bráðnunarinnar svo snemma vors sé í hæstu hæðum. Gervihnattamyndir sýni gríðarlega bráðun svo snemma á svæðum við suðausturströndina.
Hlýindin eru rakin til hlýs lofts sem hefur streymt norður á bóginn frá Flórída vegna breytinga á skotvindum. Lítil útbreiðsla hafíss í Norður-Íshafinu norður af Skandinavíu hafi magnað hlýnunina. Vísindamenn búast við því að slíkar aðstæður verði tíðari með áframhaldandi hnattrænni hlýnun af völdum manna.
Víðar hefur verið hlýtt á norðlægum slóðum í vetur og byrjun vors. Í Alaska hafa þverár Júkonfljóts aldrei losnað fyrr úr klakaböndum og á Skotlandi fór hitinn yfir tuttugu gráður í febrúar. Haf- og loftlagsstofnun Bandaríkjanna staðfesti nýlega að marsmánuður hafi verið sá annar hlýjasti frá því að mælingar hófust.
Bráðnun hófst mánuði fyrr á Grænlandi eftir óvanaleg hlýindi
Tengdar fréttir
Regn og hlýindi stöðva hundasleðakeppni í Alaska
Aflýsa hefur þurft hundasleðakeppnum og stytta leiðir vegna aðstæðna í Alaska þar sem hitinn hefur verið yfir frostmarki undanfarið. Á sama tíma bítur kuldaboli íbúa í miðvesturríkjum Bandaríkjanna fast.
Ár í Alaska aldrei losnað fyrr úr klakaböndum
Óvenjuleg hlýindi hafa verið í Alaska og hafís á Beringshafi hefur verið með minnsta móti.