Íslendingar fóru í 668 þúsund ferðir til útlanda í fyrra. Útgjöld þeirra, eða „innflutningur á erlendri ferðaþjónustu“ á erlendri grundu, námu 199 milljörðum króna, samkvæmt Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF).
Meðalútgjöld í ferð námu 297 þúsund krónum, og voru aðeins lægri en árið á undan.
Eyðsla Íslendinga í útlöndum var töluvert meiri en meðalútgjöld erlendra ferðamanna á Íslandi, en þeir eyddu að jafnaði 144 þúsund krónum á Íslandi. Árið 2009 var sú tala 184 þúsund krónur.
Í greiningu SAF segir að hærri útgjöld Íslendinga skýrist að miklu leyti af lengd dvalarinnar. Íslendingar dvelja að meðaltali um 19 nætur í utanlandsferð en meðaldvalarlengd erlendra ferðamanna á Íslandi nam 6,3 dögum í fyrra.
Íslendingar keyptu flugmiða fyrir 9 milljarða króna í fyrra af erlendum flugfélögum. Fram kemur hjá SAF að Íslendingar velji helst að ferðast með innlendum flugfélögum en bent er á að það geti verið að breytast. Sennilega er þar vísað í gjaldþrot WOW air.
Íslendingar eyddu 200 milljörðum í útlöndum
Baldur Guðmundsson skrifar
