Erlent

Engin stjórnarandstaða í kosningum í Benín

Kjartan Kjartansson skrifar
Svo merkilega vildi til að aðeins flokkar sem styðja Talon forseta voru taldir kjörgengir.
Svo merkilega vildi til að aðeins flokkar sem styðja Talon forseta voru taldir kjörgengir. Vísir/EPA
Kosið er til þings í Benín í dag en enginn fulltrúi stjórnarandstöðunnar í landinu er í framboði. Yfirkjörstjórn Benín komast að þeirri niðurstöðu í síðasta mánuði að aðeins tveir flokkar sem eru hliðhollir Patrice Talon, forseta, væru kjörgengir.

Fimm milljónir manna eru á kjörskrá í Vestur-Afríkuríkinu. Netaðgangur hefur verið takmarkaður og lokað á samfélagsmiðla og samskiptaforrit í aðdraganda kosninganna. Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt að stjórnvöld hafi bannað friðsamleg mótmæli gegn því að stjórnarandstaðan hafi verið útilokuð frá kosningunum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Öryggissveitir hafa einnig gengið hart fram gegn mótmælendum. Í síðustu viku var tárasgasi beitt á mótmælum vegna kosninganna sem tveir fyrrverandi forsetar landsins tóku þátt í.

Ný kosningalög settu ýmsar kvaðir á stjórnmálaflokka. Þannig þurfa þeir nú að reiða fram jafnvirði um 52 milljóna króna til að fá að bjóða sig fram í kosningum.

Tuttugu flokkar voru í framboði í síðustu kosningum fyrir fimm árum. Talon forseti hefur sagt að nýju kosningalögin hafi átt að grisja úr þeim hundruð stjórnmálaflokkum sem eru starfandi í landinu. Hann hélt því fram að hann gæti ekki frestað kosningunum til að gefa flokkunum tækifæri til að aðlaga sig nýju lögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×