Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna hefur náð samkomulagi við fjölþjóðlega frumkvöðulinn Elon Musk og fyrirtæki hans, Tesla, um hvers konar upplýsingum Musk er óheimilt að deila á Twitter, og annars staðar.
Verðbréfaeftirlitið hafði áður sakað Musk um að brjóta í bága við dómsúrskurð þess efnis að hann mætti ekki deila upplýsingum sem gætu haft áhrif á fjármálamarkaði, án þess að að fá fyrir því leyfi. Dómari skipaði málsaðilum að komast að samkomulagi um málið áður en látið yrði reyna á dómstólaleiðina.
Musk hefur í gegn um tíðina deilt ýmsum fyrirætlunum fyrirtækisins með fylgjendum sínum á Twitter. Meðal annars hefur hann sagt frá nýjum vörum sem fyrirtækið hefur í þróun eða hyggst framleiða, með tilheyrandi stökkum og dýfum á verðbréfamarkaði.
Nú hafa Musk og Tesla náð samkomulagi við verðbréfaeftirlitið. Samkomulagið, sem verðbréfaeftirlitið birti í dag, kveður á um að Musk má ekki, án þess að fá leyfi hjá lögmannateymi Tesla, deila upplýsingum um fjárhagsstöðu fyrirtækisins, fyrirhugaða samruna eða yfirtökur, fyrirhugaða viðskiptasamninga, áður ótilkynntar framleiðslu- eða sölutölur eða fyrirhugaða starfsemi fyrirtækisins á öðrum sviðum en það starfar nú, en samkvæmt samkomulaginu skilgreinast þau innan marka samgangna og sjálfbærrar orku.
Hvorki Tesla né Musk sjálfur hafa tjáð sig um samkomulagið.
