Skoðun

Órangútan til Víkur

Einar Freyr Elínarson skrifar
Í þáttunum Jörðin okkar sem sýndir eru á Netflix er m.a. sagt frá regnskógum jarðar og því lýst hvernig líffræðilegri fjölbreytni er stórlega ógnað. Maðurinn hefur umbreytt 27 milljónum hektara af regnskógum í svæði þar sem nú eru bara olíupálmatré sem gefa mikla uppskeru en ógna samt fjölbreytileikanum. Skógar sem hafa verið heimkynni órangútana hafa á síðustu áratugum rýrnað um 75%. Fjölbreytileiki er nefnilega grundvallarforsenda heilbrigðs og sjálfbærs samfélags.

Á síðustu áratugum höfum við séð aukna einhæfni í atvinnulífi landsbyggðarinnar. Störf sem krefjast sérfræðiþekkingar hafa eins og órangútan­arnir þjappast saman á smærra landsvæði. Við höfum séð gríðarlegan vöxt víða um land vegna aukinnar ferðaþjónustu en lögmálið um samþjöppun starfa á vegum ríkisins á höfuðborgarsvæðið ríkir enn.

Til þess að okkur takist að búa til sjálfbært samfélag þá verður að koma til fjölbreyttari samsetning fyrirtækja og íbúa. Íbúar Mýrdalshrepps hafa á síðustu árum unnið hörðum höndum að því að gera svæðið samkeppnishæft, t.a.m. með lagningu ljósleiðara. Þetta samkeppnishæfa samfélag sem okkur hefur tekist að skapa hefur alla þá innviði sem þarf til þess að þjónusta fjölbreytt atvinnulíf. Þar leikur ríkið stórt hlutverk sem atvinnurekandi. Við erum búin að plægja akurinn, nú þarf bara að sá í hann.

Við þurfum ekki órangútan til Víkur en eins og hann þá þurfum við meiri fjölbreytileika til að þrífast sem best. Vík í Mýrdal hefur alla burði til þess að vera lifandi kaupstaður sem iðar af mannlífi og fjölbreyttu atvinnulífi. Til að ná því markmiði þarf ríkið að vinna með okkur. Þjóðskrá Íslands, Samgöngustofa, Mannvirkjastofnun; það skiptir raunverulega ekki máli hvaða nafn stofnunin ber. Við getum tekið á móti hverri sem er. Við erum tilbúin og bíðum nú spennt eftir því að alþingismenn og ráðherrar sýni að þeim sé alvara þegar þeir tala um að efla dreifða byggð í landinu.

Höfundur er oddviti Mýrdalshrepps.




Skoðun

Sjá meira


×