Gunnar Steinn Jónsson tryggði Ribe-Esbjerg sigurinn á Mors-Thy í fallbarátturiðlinum í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta. Rúnar Kárason var markahæstur í liði Ribe-Esbjerg.
Fimm neðstu liðin að lokinni deildarkeppninni í dönsku úrvalsdeildinni spila í riðlakeppni þar sem botnliðið fellur úr deildinni.
Síðasta umferðin var spiluð í dag og var Ribe-Esbjerg öruggt með stöðu sína fyrir leikinn, enda búið að vinna alla leikina í riðlinum til þessa.
Leikurinn í dag var þó æsispennandi, þá sérstaklega síðustu mínúturnar. Frederik Tilsted jafnaði leikinn í 24-24 fyrir Mors-Thy þegar 1:02 var eftir af leiknum.
Á lokasekúndunum fengu heimamenn í Ribe-Esbjerg víti, Gunnar Steinn fór á punktinn og skoraði og tryggði heimamönnum þar með sigurinn 25-24.
Þetta var aðeins annað mark Gunnars í leiknum en hann átti fjórar stoðsendingar. Rúnar Kárason var hins vegar markahæstur í liði Ribe-Esbjerg ásamt Kasper Kvist, báðir skoruðu þeir sex mörk.
