Þrír farþegar voru í vagninum, leið 7 úr Mosfellsbæ niður í Spöng, þegar slysið varð. Guðmundur hefur eftir lögreglu að bílstjórinn hafi verið meðvitundarlaus þegar viðbragðsaðilar komu að honum.
Bílstjórinn var þó kominn til meðvitundar þegar hann var fluttur á slysadeild ásamt einum farþega, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Eru áverkar þeirra taldir minniháttar. Lögregla hafði ekki upplýsingar um afdrif hinna farþeganna en vinna stendur enn yfir á vettvangi.
Mikið lán að vagninn hafi haldist á hjólunum
Sigurbjörn Guðmundsson, varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins á vettvangi, segir í samtali við fréttastofu að allir í vagninum virðist hafa sloppið vel frá slysinu og þá hafi aðstæður á slysstað verið nokkuð góðar.„Það var greinilegt hvað hafði gerst, strætó farið hér út af veginum fyrir ofan og runnið hérna niður talsverðan halla eftir bílastæði en hélst alltaf á hjólunum, sem var mikið lán.“
Töluvert viðbragð var vegna slyssins en auk lögreglu sendi slökkvilið dælubíl og þrjá sjúkrabíla á slysstað. Þá hefur annar vagnstjóri verið kallaður út og er leið 7 aftur komin á áætlun eftir óhappið, samkvæmt upplýsingum frá Strætó.
Fréttin hefur verið uppfærð.