Innlent

Vegurinn þröngur á um­ræddum vega­kafla

Atli Ísleifsson skrifar
Alls voru 33 farþegar í rútunni sem allt voru kínverskir ferðamenn.
Alls voru 33 farþegar í rútunni sem allt voru kínverskir ferðamenn. vísir/magnús hlynur
„Vegakaflinn er náttúrulega í fullri breidd, en þarna eru engar vegaaxlir. Hann gefur ekkert eftir.“ Þetta segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, um aðstæður þar sem rútuslysið varð á Suðurlandsvegi við Hof í Öræfum í gær.

Sveinn Kristján segir lögreglu ekki vera komna með niðurstöður varðandi orsök slyssins. Upplýsingar séu um að rútan hafi verið nýbúin að mæta tveimur flutningabílum og svo hafi verið sviptivindar verið á slysstað. Allt sé þetta til rannsóknar hjá lögreglu, en rútan var á leið austur þegar slysið varð.

Alls voru 32 farþegar í rútunni sem allt voru kínverskir ferðamenn. Fjórir slösuðust alvarlega og voru þeir fluttir á Landspítalann í Reykjavík, en aðrir ýmist fluttir á Selfoss eða til Akureyrar.



Skýrsla tekin í dag

Sveinn Kristján segir að skýrsla verði tekin af farþegum í dag. Aðspurður um hvort að farþegar hafi verið í bílbeltum segir hann að það verði kannað nánar við skýrslutöku í dag.

Almennt geti hann þó sagt að það fari mikið eftir þjóðerni ferðamanna og menningunni í hverju landi fyrir sig hvort að viðkomandi notist við bílbelti í rútum hérlendis. Fulltrúar ferðaþjónustufyrirtækja brýni almennt fyrir fólki að notast við bílbelti en misjafnt sé hvort farið sé eftir orðum þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×