Erlent

Lenti flugvélinni án nefhjólsins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Flugvélin við lendingu í gær.
Flugvélin við lendingu í gær. Skjáskot/Youtube
Flugmaður mjanmarska flugfélagsins Myanmar National Airlines þótti vinna þrekvirki þegar hann lenti farþegaflugvél félagsins án nefhjólsins á flugvelli í Mandalay í gær.

Enginn slasaðist við lendinguna en 82 farþegar og sjö áhafnarmeðlimir voru um borð í vélinni sem er af gerðinni Embraer-190. Nokkurrar ringulreiðar gætti meðal farþega þegar flugvélin lenti, ef marka má myndband sem deilt var á samfélagsmiðlum í gær, en þeir komust allir heilu og höldnu úr vélinni.

Haft er eftir stjórnanda hjá flugráðuneyti Mjanmar að flugmaðurinn hafi ítrekað reynt að virkja lendingarbúnaðinn á fremri hluta vélarinnar, fyrst sjálfvirkt og svo handvirkt, án árangurs. Flugvélin hafi hringsólað við flugvöllinn áður en ákveðið var að lenda án framhjólanna.

Atvikið er nú rannsakað en um er að ræða aðra bilunina í flugi í Mjanmar á einni viku. Fjórum dögum áður hafnaði flugvél flugfélagsins Biman Bangladesh Airlines utan flugbrautar við lendingu á Yangon-flugvellinum í miklu óveðri. Ellefu farþegar slösuðust í slysinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×