Enski boltinn

Enskt vor eins og það hefur aldrei sést áður í sögu fótboltans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er þegar orðið öruggt að ensk lið vinna þessa tvo eftirstóttu bikara í ár.
Það er þegar orðið öruggt að ensk lið vinna þessa tvo eftirstóttu bikara í ár. Samsett/Getty
Ensku liðin Tottenham, Liverpool, Chelsea og Arsenal komust öll í úrslitaleik í Evrópukeppni í ár og skrifuðu með því nýjan kafla í sögu Evrópukeppnanna.

Það hefur vissulega komið fyrir áður að lið frá sama landi mætist í úrslitaleik í Evrópukeppni en þetta er í fyrsta sinn sem sama þjóð á öll fjögur liðin í úrslitaleikjunum tveimur.





Tottenham og Liverpool mætast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Madrid og Chelsea og Arsenal mætast nokkrum dögum fyrr í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.

Það var mikil dramatík í kringum sigurleiki Tottenham, Liverpool og Chelsea en Arsenal átti ekki í miklum erfiðleikum með spænska liðið Valencia.







Það hafa verið tveir enskir úrslitaleikir áður í sögu Evrópukeppninnar en Tottenham vann Wolves í úrslitaleik UEFA-bikarsins 1972 og vorið 2008 mættust Manchester United og Chelsea í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Moskvu.

Spánn hafði komist næst þessu með því að eiga þrjú af fjórum liðum í úrslitaleikjunum 2016 en Real Madrid vann þá Atletico Madrid í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og Sevilla vann Evrópudeildina.





„Getustigið er mjög hátt í Englandi og enska úrvalsdeildin er besta deildin í Evrópu,“ sagði Maurizio Sarri, knattspyrnustjóri Chelsea, eftir sigur á Eintracht Frankfurt í vítakeppni á Stamford Bridge í gærkvöldi.

Úrslitaleikur Evrópudeildarinnar fer fram í Bakú í Aserbaísjan sem er í tæplega fjögur þúsund kílómetra fjarlægð frá London. Það er langt að fara fyrir stuðningsmenn liðanna en UEFA var heldur ekki að láta Chelsea eða Arsenal fá marga miða á leikinn.

Leikvangurinn tekur meira en 68 þúsund manns en Chelsea og Arsenal fá aðeins sex þúsund miða hvort félag. Stuðningsmenn Chelsea og Arsenal verða því aðeins rúmlega sautján prósent áhorfenda á leiknum sem er galin staðreynd.

Þessi árangur ensku liðanna þýðir að það munu tvö ensk lið mætast í Súperbikar UEFA í haust en þar mætast alltaf liðin sem vinna Meistaradeildina og Evrópudeildina. Sá leikur fer fram í Istanbul í Tyrklandi.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×