Innlent

100 tonna krani hífði hrefnuna upp sem flutt var til urðunar í Álfsnesi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
100 tonna krani var fenginn til þess að hífa hrefnuna upp á vörubíl.
100 tonna krani var fenginn til þess að hífa hrefnuna upp á vörubíl.
Þorgrímur Hallgrímsson, rekstrarstjóri hverfastöðvar umhverfis- og skipulagssviðs á Njarðargötunni, segir að það hafi gengið vonum framar að fjarlægja hrefnuhræið sem rak á land við Eiðsgranda um hádegisbil í gær.

Þorgrímur hafði umsjón með verkinu í morgun en Heilbrigðiseftirlit Reykjavík og Umhverfisstofnun sáu um að fjarlægja hræið og flytja það til urðunar í Álfsnesi.

Þorgrímur segir að dýrið hafi vegið um 4,8 tonn en 100 tonna krani var notaður til þess að hífa hræið upp á vörubíl sem flutti hann svo á urðunarstöðina.

Lögreglan fékk tilkynningu um hvalrekann um klukkan hálfeitt í gær. Sést hafði til hrefnunnar á Faxaflóa á laugardag og í Hvalfirði á mánudag en þá var fyrst talið að hrefnan væri skúta sem farið hefði á hliðina og var Landhelgisgæslan kölluð út.

Tunga dýrsins vakti mikla athygli í gær en hún hafði tútnað út vegna gerjunar inni í hræinu. Óttast var að tungan myndi springa með tilheyrandi ólykt en það gerðist ekki heldur lak loftið úr henni.


Tengdar fréttir

Tunga hrefnunnar tútnaði út

Sverrir Daníel Halldórsson, líffræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, fór í dag og skoðaði hræ hrefnunnar sem rak á land við Granda skömmu eftir hádegi.

Rak á land við Granda

Talið er að dauðan hval hafi rekið á land við Granda nú skömmu eftir hádegi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×