Erlent

Trump og Pelosi efast um andlega heilsu hvors annars

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Nancy Pelosi, Chuck Schumer og félagar úr Demókrataflokknum hyggjast standa í vegi fyrir Trump
Nancy Pelosi, Chuck Schumer og félagar úr Demókrataflokknum hyggjast standa í vegi fyrir Trump Getty/Bloomberg/ Alex Wong
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, skiptust á skotum í gegnum fjölmiðla í dag. Þau eru ekki sammála um það hvernig afar stuttur fundur þeirra í Hvíta húsinu í gær gekk fyrir sig.

Trump strunsaði sem kunnugt er út af fundinum eftir aðeins þrjár mínútur, áður en nokkur annar gat komið orði að. Leiðtogar demókrata sem sátu fundinn sögðu Trump hafa verið bálreiðann vegna orða Pelosi fyrr um daginn er hún sakaði hann um yfirhylmingu.

Pelosi var spurð um viðbrögð Trump á vikulegum blaðamannafundi í dag og þar sagði hún að Trump hefði farið út í bræðiskasti. Sagðist hún hafa áhyggjur af forsetanum, sem og Bandaríkjunum og að hann hefði gott af því að taka sér frí.

„Ég bið fyrir forseta Bandaríkjanna,“ sagði Pelosi. „Ég vona að einhver úr fjölskyldu hans, ríkisstjórninni eða starfsliði grípi inn í til góða fyrir Bandaríkin.“

Grunnt hefur verið á því góða á milli Hvíta hússins og demókrata undanfarnar vikur. Trump forseti hefur ákveðið að hunsa allar kröfur og stefnur þingnefnda fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, þar sem demókratar eru með meirihluta, um upplýsingar í tengslum við rannsóknir þeirra.

Sagði hún afstöðu Trump til rannsókna fulltrúadeildarinnar vera illgjarna.

Trump svaraði fyrir sig síðar um daginn og sagði hann ummæli hennar um að halda ætti inngrip vera ógeðfelld.

„Brjálaða-Nancy,“ sagði Trump. „Ég skal segja ykkur það að ég hef fylgst með henni til lengri tíma og hún er ekki sama manneskjan og hún var. Hún er búin að missa það.“

Þá þvertók Trump fyrir að hafa öskrað og kallað á fundinum stutta í Hvíta húsinu. Sagðist hann í raun vera „ótrúlega stöðugur snillingur“. Eyddi hann meðal annars dágóðum tíma á fréttamannafundi þar sem tilkynnt var um 16 milljarða dollara björgunarpakka til bandarískra bænda vegna viðskiptastríðsins við Kína í að fá starfslið sitt til að segja hversu rólegur hann hafi verið á fundinum.


Tengdar fréttir

Trump strunsaði út af fundi með demókrötum

Fátíð tilraun repúblikana og demókrata til þverpólitískrar sáttar fór út um þúfur þegar Trump forseti tók ummæli þingforsetans um yfirhylmingu óstinn upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×