Fótbolti

„Óréttlætanlegt“ að láta Cech spila úrslitaleikinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Petr Cech hefur varið mark Arsenal í Evrópudeildinni
Petr Cech hefur varið mark Arsenal í Evrópudeildinni vísir/getty
Petr Cech mun leggja hanskana á hilluna eftir tímabilið og því mun hann spila sinn síðasta leik á ferlinum ef hann byrjar í markinu í úrslitaleik Evrópudeildarinnar. Spekingar vilja þó ekki sjá hann spila þann leik.

Cech hefur verið varamarkvörður Arsenal í vetur en hefur fengið að spila í Evrópudeildinni. Það er því alls ekki óeðlilegt að vænta þess að hann byrji úrslitaleikinn gegn sínum gömlu félögum í Chelsea.

Fyrrum markmaður Arsenal, David Seaman, vill að Bernd Leno byrji í markinu.

„Arsenal þarf virkilega á þessu að halda, þeir þurfa þetta meira en Chelsea,“ sagði Seaman.

„Þeir þurfa að komast inn í Meistaradeildina og ég styð það að lið eigi alltaf að spila á sínu sterkasta liði. Það þýðir Leno í markinu, en ég er nokkuð viss um að Cech spili því þetta er síðasti leikur hans.“

Blaðamaður The Times, Tony Cascarino tekur í sama streng.

„Ég get næstum farið svo langt að segja að ef stjóri velur markmann númer tvö í svona mikilvægan leik, þá er það brot sem hægt er að reka menn fyrir,“ skrifar Cascarino í pistli sínum.

„Það er svo mikið undir að það er ekki hægt að réttlæta það að láta Cech byrja.“

Enn einn flækjupunkturinn í ákvörðun Unai Emery er að Petr Cech mun taka starfi yfirmanns knattspyrnumála hjá Chelsea þegar tímabilinu líkur.

Bæði Cascarino og Seaman segja það þó ekki skipta máli, niðurstaðan er sú að Leno sé betri en Cech og því eigi hann að spila leikinn.

Úrslitaleikur Evrópudeildarinnar fer fram næsta miðvikudag, 29. maí, og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×