Innlent

Guðni forseti segist kunna að grilla en gerir þó ekki mikið af því

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar

Kótiletturnar sem forseti Íslands grillaði á Selfossi í dag runnu ljúflega niður í hátíðargesta á bæjarhátíðunni Kótelettunni, sem fer fram um helgina. Guðni segist ekki grilla mikið en ef hann grilli þá verði lambakjöt fyrir valinu.

Það var góð stemming í Sigtúnsgarði á Selfossi þar sem fjölskyldudagskrá Kótelettunnar fór fram með fjölbreyttum atriðum. Dagskráin heldur áfram í kvöld og nótt með stórtónleikum við Hvíta húsið og svo aftur á morgun með fjölskyldudagskrá í Sigtúnsgarði.

„Já, hér er einvalalið og ég bættist í hópinn. Það fer nú tvennum sögum af því hvort ég kunni að grilla en mér finnst ég kunna að grilla, já,“ sagði Guðni. Hann var ánægður að fá að styrkja gott málefni en allur ágóði af grillsölunni rann til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Árborg mætti líka og grillaði í dag með Guðna forseta.Magnús Hlynur Hreiðarsson.

Guðni segist vera hrifnastur af grilluðu lambakjöti og alltaf hefur hann eitthvað gott meðlæti með, meðal annars salat.

En er ananas í því?

„Það hlaut að koma að því að þú myndir spyrja að því, nei það er ekki ananas í því.“

Guðni var mjög ánægður með heimsóknina á Selfoss. „Já, mín er ánægjan, það er fullt af fólki, allir í góðu skapi og veðrið leikur við okkur, það er alltaf gott að vera á Selfossi, við vitum það bræðurnir,“ sagði Guðni og hló, en Patrekur, bróðir forseta, stýrði á dögunum handboltaliði Selfoss til Íslandsmeistaratitils.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×