Innlent

Gerir ráð fyrir að WikiLeaks njóti góðs af skaðabótunum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Sveinn Andri Sveinsson er lögmaður Datacell og Sunshine Press Productions.
Sveinn Andri Sveinsson er lögmaður Datacell og Sunshine Press Productions. Vísir/Vilhelm
Valitor hefur fallist á að greiða Datacell og Sunshine Press Productions samtals 1.2 milljarða króna í skaðabætur. Lögmaður fyrirtækjanna tveggja segir gott að málinu sé lokið og gerir ráð fyrir að WikiLeaks njóti góðs af skaðabótunum.

Deilur hafa ríkt milli félaganna en forsaga málsins er sú að Wikileaks tók við styrkjum í gegnum greiðslugátt sem Datacell og SPP ráku. Degi eftir að greiðslugáttin var opnuð lokaði Valitor á hana. Í fréttablaðinu í dag kemur fram að í dómi Hæstaréttar var því slegið föstu að riftun samningsins hafi verið ólögmæt, en síðan þá hafa deilur snúist um skaðabótakröfu vegna riftunar. 

Skaðabótakrafan hljóðar upp á 1.2 milljarða króna og segir lögmaður Datacell og SPP blendnar tilfinningar fylgja slíku samkomulagi.

„Það má segja að þegar samkomulag er gert þá eru það oft blendnar tilfinningar. Menn ná ekki öllu sínu fram eins og upp var lagt með. Það er stundum sagt í lögmennsku að bestu sættirnar séu þær sem báðir aðilar eru ósáttir við. Ætli það sé ekki staðan í dag. En það er hins vegar bara gott að þessu máli sé lokið. Nú er hægt að henda þessu aftur fyrir sig og snúa sér að öðru,“ sagði Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður.

Hann segist búast við því að starfsemi og rekstur WikiLeaks njóti góðs af skaðabótunum enda er SPP rekstraraðili uppljóstrunarsíðunnar.

„Já sko það er SPP sem er minn umbjóðandi sem er rekstraraðili uppljóstrunarsíðunnar WikiLeaks, þannig já ég gef mér það að starfsemi og rekstur wikileaks muni njóta góðs af þessu án þess að ég viti nákvæmlega hvernig þessu verði háttað,“ sagði Sveinn Andri.

Í fréttatilkynningu frá Valitor kemur fram að gagnkvæmur trúnaður ríki um efni samkomulagsins og verði því ekki greint frekar frá einstökum atriðum þess. Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor segir að til grundvallar samkomulaginu hafi legið mat á hagsmunum Valitor auk þess sem horft var til söluferlis félagsins.

Greiðslugáttin sem Wikileaks þáði styrki í gegnum var lokað fyrirvaralaust af Valitor 8. júlí 2011, degi eftir opnun hennar.Fréttablaðið/Stefán

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×