Skoðun

Allt í uppnámi?

Birna Lárusdóttir skrifar
Í upphafi árs 2013 samþykkti Alþingi 2. áfanga rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða. Hafði málefnið þá verið í meðförum þingsins í nær þrjá áratugi eða frá árinu 1985. Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði á Ströndum er í nýtingarflokki áætlunarinnar.

Um það leyti sem rammaáætlun var að taka á sig endanlega mynd fyrir sex árum hafði þjóðþekktur baráttumaður fyrir náttúruvernd á orði að með áætluninni skapaðist „vitrænn og skipulegur farvegur“ til skoðanaskipta sem væri „grundvöllur siðaðs lýðræðisþjóðfélags“.

Þessi orð rifjast upp í þeirri miklu og óvægnu orrahríð sem nú er háð gegn uppbyggingu Hvalárvirkjunar og þeim sem að henni standa.

Baráttan gegn Hvalárvirkjun er um leið atlaga gegn brýnni innviðauppbyggingu á Vestfjörðum. Því er meðal annars lýst yfir af náttúruverndarsamtökum að einskis verði látið ófreistað til að stöðva virkjunaráformin. Helgar tilgangurinn mögulega öll meðul – bæði lögmæt og ólögmæt?

Aðferðafræði þeirra sem hæst láta felst helst í skæðadrífu órökstuddra fullyrðinga og aðdróttana sem ítrekað er vitnað til sem algildra sanninda með tilheyrandi tilfinningahita. Slíkur hamagangur getur komið róti á hugi margra en verður seint talinn farsæll farvegur fyrir skoðanaskipti. Stærstu samtökin í þessum efnum, Landvernd, ganga síðan svo langt að saka virkjunaraðila um lögbrot. Það eru alvarlegar ásakanir.

Rammaáætlun er málamiðlun þar sem saman eru vegnir heildarhagsmunir með landið allt undir smásjánni. Slíkum málamiðlunum getur verið erfitt að una en þær eru engu að síður grundvöllur í siðuðu lýðræðisþjóðfélagi. Pólitíkin getur kollvarpað þeim og sett nýjar leikreglur. Meðan það er ekki gert er okkur skylt að hlíta þeim leikreglum sem hafa verið settar.

Þeir sem hamast mest gegn Hvalárvirkjun mættu hafa það í huga að sé nýtingarflokkur rammaáætlunar að engu hafður er líklegt að hin mikilvæga vernd, sem í áætluninni felst, komist einnig í uppnám.

Höfundur er upplýsingafulltrúi VesturVerks á Ísafirði




Skoðun

Sjá meira


×