Innlent

Vaknaði við ókunnan mann í íbúðinni

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Frá Laugardalnum. Myndin er úr safni.
Frá Laugardalnum. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm
Íbúi í Laugardal í Reykjavík vaknaði við að ókunnur maður væri inni í íbúð hans um klukkan fjögur í nótt. Aðkomumaðurinn var ölvaður og fór strax úr íbúðinni án þess að taka nokkuð með sér, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hann var einnig sagður hafa farið upp í bíl og ekið af stað og fannst ekki þrátt fyrir leit lögreglu.

Um tíu leytið í gærkvöldi var tilkynnt um umferðaslys í Kópavogi. Þar hafði fjórhjól með tveimur mönnum oltið. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur en hann kenndi eymsla í öxl og var fluttur á slysadeild til aðhlynningar og síðar vistaður í fangageymslu lögreglunnar fyrir rannsókn málsins. Farþegi fjórhjólsins slapp hins vegar ómeiddur.

Þá var maður handtekinn í Háaleitis- og Bústaðahverfi snemma í gærkvöldi vegna þjófnaðar úr verslun. Maðurinn reyndist í annarlegu ástandi, var handtekinn og vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. 

Annar maður sem staðið hafði í ágreiningi í Kópavogi var einnig handtekinn í gærkvöldi en hann hafði verið með hníf við hönd. Maðurinn er grunaður um brot á vopnalögum, líkamsárás og eignarspjöll og var hann því vistaður í fangageymslum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×