Innlent

Vilja rannsóknir á steingervingum við Hvalá

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Hvalá á Ströndum sem stendur til að virkja.
Hvalá á Ströndum sem stendur til að virkja. mynd/tómas guðbjartsson
Samtökin Ófeig náttúruvernd hafa óskað eftir því að Náttúrufræðistofnun íslands hlutist til um rannsóknir á steingervingum í jarðlögum við Hvalá þar sem framkvæmdir við Hvalárvirkjun eru fyrirhugaðar. Jarðfræðingur segir það ekki samræmast náttúruverndarlögum að raska svæði þar sem finna má steingervinga í jarðlögum.

Í bréfi náttúruverndarsamtakanna til Náttúrufræðistofnunar segir að í síðustu viku hafi heimamenn í Árneshreppi fundið steingervinga í jarðlögum á svæði þar sem deiliskipulag og framkvæmdaleyfi hafa heimilað framkvæmdir á veg í tengslum við uppbyggingu Hvalárvirkjunar.

Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar, staðfestir í samtali við fréttastofu að bréf Ófeigar hafi borist stofnuninni og þar innandyra er málið komið í ferli.

Snæbjörn Guðmundsson, stjórnarmaður í náttúruverndarsamtökunum og jarðfræðingur, segir það ótækt að framkvæmdir á svæðinu raski steingervingum án þess að Náttúrufræðistofnun fái tækifæri til að rannsaka þá.

„Steingervingar njóta sérstakrar verndar í náttúruverndarlögum og þeirra hefur ekki verið getið í umhverfismati eða neinum gögnum sem snúa að Hvalárvirkjun og það er mikilvægt að það verði farið yfir það og þeir rannsakaðir og verndaðir því þeir eru mikilvægir vegna rannsóknargildis.“

Hann segir að um sé að ræða svokallaðar trjáholur.

„Heimamenn hafa vitað af þessu og bent okkur á svokallaðar trjáholur, sem eru för eftir trjáboli, þegar svæðið var virkt fyrir tíu milljónum ára þá runnu þarna hraun og þarna hefur hraun runnið yfir fórnan skóg og hulið trjábolina sem síðan hafa eyðst og þeir skilið eftir holrými í hrauninu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×