Innlent

Kom auga á óvenjulegar loftbólur við Öræfajökul

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þessi mynd er tekin við mælingar í Kvíárlóni í gær.
Þessi mynd er tekin við mælingar í Kvíárlóni í gær. Mynd/tryggvi hjörvar
Veðurstofu Íslands barst á föstudag tilkynning frá glöggum landverði sem sá óvenjulegar loftbólur í Kvíárlóni, suðaustan við Öræfajökul. Mælingamenn Veðurstofunnar fóru á staðinn í gær til að meta hvort hætta væri á ferðum og hvort gasið væri til marks um aukna virkni í eldfjallinu en svo virtist að endingu ekki vera.

Við mælinguna sáust einstaka loftbólur á yfirborði lónsins og „heyrist eins og í gosdrykk“, að því er segir í færslu um málið á Facebook-síðu Veðurstofunnar.

Mælingamenn notuðu til verksins sérstaka fjölgasmæla sem soga inn loft úr umhverfinu og geta greint koltvísýring, brennisteinsvetni, brennisteinstvíyldi og vetni( CO2, H2S, SO2, H).

„Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að safna gasinu í trekt undir yfirborðinu þá reyndist það í of litlu magni til að vera greinanlegt,“ segir í færslunni. Það sé því mat sérfræðinga að ekki sé hætta á ferðum fyrir ferðafólk vegna gassins. Frekari greiningar á vatnssýnum muni hugsanlega leiða í ljós hvaða gas sé hér á ferð.

„Líklegast er að hér sé um koltvísýring í litlu magni að ræða. Slíkt útstreymi koltvísýrings frá eldfjöllum er allvanalegt og er ekki talið benda til aukinnar virkni í eldfjallinu. Dregið hefur mjög úr jarðskjálftavirkni og þenslu í Öræfajökli á árinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×