Innlent

Minnisvarði reistur um hvunndagshetjuna Bangsa

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Bangsi var verkamaður sem reri til fiskjar.
Bangsi var verkamaður sem reri til fiskjar. Mynd/Birgir Karlsson
Bæjarstjórn Húnaþings vestra hefur samþykkt að reisa minnisvarða um Björn Þóri Sigurðsson, eða Bangsa eins og hann var gjarnan kallaður. Það var Kótilettunefndin sem kom með þessa tillögu fyrir skemmstu en hún beitir sér fyrir ýmsum góðgerðarmálum á Hvammstanga og nágrenni.

Samkvæmt Guðmundi Hauki Sigurðssyni, í Kótilettunefndinni, er áætlað að minnisvarðinn verði reistur í haust á túninu sem nefnt er eftir Bangsa. Bangsi féll frá í september á síðasta ári, 83 ára að aldri.

„Bangsi var hvunndagshetja ef svo má segja,“ segir Guðmundur. „Hann var ákaflega vel liðinn af bæði fullorðnum og börnum og var alltaf að bjástra eitthvað í þorpinu.“

Bangsi var ókvæntur og barnlaus og starfaði lengst af sem verkamaður. Þá reri hann einnig til fiskjar á bát sem hann smíðaði sjálfur um tvítugt.

„Auk þess að koma upp skiltinu ætlum við að reyna að varðveita bátinn, endurbyggja hann og hafa hann einhvers staðar til sýnis.“

Hvammstangi var byggður að stórum hluta á jörð sem var í eigu fjölskyldu Bangsa. Þess vegna er útivistarsvæðið í miðju bæjarins kallað Bangsatún. Hafa þar verið haldnar ýmsar bæjarskemmtanir svo sem hátíðin Eldur í Húnaþingi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×