Nafni HB Granda verður breytt í Brim. Tillagan var samþykkt á hluthafafundi félagsins í dag. Einnig voru umdeild kaup félagsins á sölufélögum í eigu Útgerðarfélags Reykjavíkur, ÚR, í Asíu samþykkt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá HB Granda.
HB Grandi mun þannig festa kaup á öllu hlutafé í sölufélögum ÚR í Japan, Hong Kong og á meginlandi Kína, sem og þjónustufélagi á Íslandi. Kaupverðið nemur rúmum fjórum milljörðum króna og greiðist að fullu með útgáfu nýrra hluta í HB Granda hf.
Kaupin voru samþykkt með 88,85% greiddum atkvæðum þeirra sem fundinn sátu. 11,15% greiddu atkvæði á móti. Kaup HB Granda á sölufélögum ÚR, sem er stærsti hluthafi í HB Granda, hafa verið umdeild.
Í vikunni sendi Gildi lífeyrissjóður, fjórði stærsti hluthafi í HB Granda, frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að lífeyrissjóðurinn myndi greiða atkvæði gegn kaupunum. Þá sagði lífeyrissjóðurinn að fyrirætlanir HB Granda á Asíumarkaði væru „ekki trúverðugar“.
Tillaga um nafnabreytingu félagsins úr HB Granda í Brim var samþykkt með 90,95% atkvæða þeirra hluthafa sem fundinn sátu, á móti voru 0,05%, auð og ógild 9,00%
HB Grandi verður Brim og samþykkti umdeild kaup

Tengdar fréttir

Segja fyrirætlanir HB Granda „ekki trúverðugar“ og greiða atkvæði gegn kaupunum
Gildi lífeyrissjóður hyggst greiða atkvæði gegn fyrirhuguðum kaupum HB Granda á sölufélögum í eigu Útgerðarfélags Reykjavíkur í Asíu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Gildi.

HB Grandi kaupir sölufélög í Asíu af ÚR
HB Grandi hf. og Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. hafa náð samkomulagi um kaup fyrrnefnda félagsins á sölufélögum þess síðarnefnda í Asíu.

Einn nýjasti togari HB Granda seldur til Rússlands
Aðeins tvö ár eru síðan Engey RE 1 kom til landsins.