Íslenski boltinn

Það fyrsta sem Ragna Lóa sagði í vetur var við værum að fara í bikarúrslitin

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Þórunn Helga Jónsdóttir fagnaði bikarmeistaratitli með KR árið 2008. Hún getur lyft titlinum sem fyrirliði liðsins á Laugardalsvelli um helgina.
Þórunn Helga Jónsdóttir fagnaði bikarmeistaratitli með KR árið 2008. Hún getur lyft titlinum sem fyrirliði liðsins á Laugardalsvelli um helgina. vísir
KR getur orðið bikarmeistari í fyrsta sinn í ellefu ár þegar liðið mætir Selfossi í úrslitum Mjólkurbikars kvenna á Laugardalsvelli á laugardag.

Þórunn Helga Jónsdóttir, fyrirliði KR, segir spennuna vera farna að magnast í vesturbænum.

„Þetta er stærsti leikur ársins svo það eru allir mjög spenntir,“ sagði Þórunn á blaðamannafundi KSÍ í dag.

„Hann leggst vel í okkur. Við byrjuðum ekkert allt of vel í deildinni svo þetta var okkar séns á að vinna titil.“

„Við erum með einn mjög titlagráðugan þjálfara, mögulega tvo reyndar en ég er að tala um Rögnu Lóu [Stefánsdóttur] núna, í vetur þegar hún tók við hópnum og kom inn í klefa, ég held það hafi verið áður en hún kynnti sig, þá sagði hún bara við erum að fara í bikarúrslitin og það er bara þannig.“

KR-liðið náði að fylgja eftir skipunum Rögnu Lóu og komast í bikarúrslitin. Nú þarf liðið að leggja Selfoss að velli til þess að fagna titlinum í fyrsta sinn síðan árið 2008.

„Ég spilaði leikinn [2008] og svo spilaði Hólmfríður Magnúsdóttir hann líka. Við Hólmfríður höfum spilað nokkra bikarúrslitaleiki saman, bæði hérna á Íslandi og í Noregi, svo það verður gaman að mætast í þetta skiptið,“ sagði Þórunn en Hólmfríður skoraði þrennu fyrir KR í úrslitaleiknum 2008. Hún hefur farið á kostum með Selfossi í sumar.

„Ég elska KR, hef alltaf viljað að KR vinni titla og mun alltaf vilja. Það er heiður að fá að taka þátt í svona stórum degi sem leikmaður,“ sagði Þórunn Helga.

Bikarúrslitaleikurinn er á Laugardalsvelli á laugardaginn, 17. ágúst, og hefst hann klukkan 17:00. Hann verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst útsending hálftíma fyrir leik. Fyrir þá sem ætla að mæta á völlinn vill KSÍ hvetja fólk til þess að kaupa miða fyrir fram á tix.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×