Erlent

Systkinin mættu saman á fyrsta skóladegi Karlottu

Atli Ísleifsson skrifar
Karlotta, Katrín, Georg og Vilhjálmur í morgun.
Karlotta, Katrín, Georg og Vilhjálmur í morgun. Getty
Breska prinsessan Karlotta mætti í fylgd foreldra sinna og eldri bróður í grunnskólann Thomas's Battersea í suðurhluta Lundúna í morgun þar sem hún hóf skólagöngu sína.

Karlotta hélt upp á fjögurra ára afmæli sitt í maí, en hinn sex ára bróðir hennar, Georg, hefur stundað nám við sama skóla um tveggja ára skeið.

Ljósmyndarar náðu myndum af fjölskyldunni þar sem hún mætti á skólalóðina í morgun. Mátti þar sjá Karlottu leiða móður sína, Katrínu hertogaynju, en Georg föður sinn, Vilhjálm prins. Loðvík prins, yngsta barn Katrínar og Vilhjálms, var þó fjarri góðu gamni.

Vilhjálmur sagði við fjölmiðla að Karlotta væri mjög spennt að hefja skólagönguna, og mátti fylgjast með henni taka í hönd skólastjórans. 581 nemandi stundar nám við skólann.

Í frétt Sky segir að alls verði 21 nemandi í bekk Karlottu og mun hún meðal annars stunda nám í kínversku, frönsku, ballett, íþróttum og listum.

Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×