Guttormur Þorsteinsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, vill nýta tækifærið á meðan fulltrúi Bandaríkjastjórnar er staddur hér á landi til að senda stjórnvöldum á Íslandi og í Bandaríkjunum skýr skilaboð.
Félagasamtökin fundu sig knúin til að skapa vettvang fyrir fólk sem vill láta í ljós afstöðu sína til stefnu Trump-stjórnarinnar.
Félagasamtökin eru Samtökin‘ 78, Samtök hernaðarandstæðinga, Trans Ísland, Femínistafélag Íslands, Menningar- og friðarsamtök MFÍK, Ungir Jafnaðarmenn, Ung vinstri græn, Kvenréttindafélag Íslands, Húmanistaflokkurinn, Ungir Píratar og Jæja.
Aðspurður hvort hann treysti ekki innlendum stjórnmálamönnum til að tala þeirra máli svarar Guttormur:
„Ég held að það sé alltaf miklu kröftugra þegar fleiri sýna skoðun sína og þetta er náttúrulega bara svona opinber skilaboð, bæði til bandarískra stjórnvalda og íslenskra um hvað okkur finnst um þetta.“

„Allur þessi hernaðarundirbúningur sem hefur verið hérna í Keflavík, sprengjuþotur, framkvæmdir og annað þá finnst mér benda til þess að það sé einhver áhersla hjá bandarískum stjórnvöldum að auka vígvæðingu hérna á norðurslóðum og þá að reyna að fá Ísland inn í það sem er að sjálfsögðu mjög uggvænleg þróun finnst okkur,“ segir Guttormur.
Mótmælin eru þó ekki einungis hugsuð fyrir hernaðarandstæðinga því það eru tíu önnur félagasamtök sem standa fyrir útifundinum. Pence hefur til að mynda verið harðlega gagnrýndur fyrir fornfáleg viðhorf til hinsegin fólks.
„Það er svo margt sem hægt er að vera ósammála honum með; hinsegin málefni, kvenréttindi, umhverfismálin, flóttamannamál; í rauninni allt sem þessi maður stendur fyrir. Ég held að flestum Íslendingum ætti að finnast það frekar ógeðfellt þannig að okkur fannst sjálfsagt að það væru bara sem flestir sem nýttu þetta tækifæri til að láta skoðun sína í ljós,“ segir Guttormur.