Enski boltinn

Jose Mourinho hefði fengið hjartaáfall á hliðarlínunni á Emirates í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Unai Emery og Mauricio Pochettino
Unai Emery og Mauricio Pochettino Getty/Chris Brunskill
Jose Mourinho var mættur í settið hjá Sky Sports eftir leik Arsenal og Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í gær en leikurinn var mjög fjörugur og endaði með 2-2 jafntefli.

Það gekk mikið á í leiknum ekki síst á lokamínútunum og Jose Mourinho hrósaði liðunum tveimur fyrir mikla skemmtun. Sem knattspyrnustjóri annars hvors liðsins hefði hann þó ekki verið eins hrifinn.

„Fyndinn, tilfinningaríkur og skemmtilegur á að horfa. Ég held að allir sem voru hér finnist það líka,“ svaraði Jose Mourinho þegar hann var beðinn að lýsa leik liðanna.

„Ég held að allar milljónirnar heima og þeir þúsundir áhorfenda hér hafi notið þessa leik. Ég sjálfur vildi ekki að leikurinn kláraðist,“ sagði Jose Mourinho en var svo beðinn um að setja sig í fótspor knattspyrnustjóra liðanna þeirra Unai Emery hjá Arsenal og Mauricio Pochettino hjá Tottenham.

„Ég hefði fengið hjartaáfall á hliðarlínunni því síðustu tíu eða fimmtán mínútur leiksins þá var leikurinn spilaður á 80 metrum. Það voru 80 metrar á milli varnarlínu Arsenal og varnarlínu Spurs. Það var mikið pláss til að spila og hver skyndisóknin á fætur annarri leit dagsins ljós. Þetta var ótrúlegt á að horfa og leikurinn var gjörsamlega stjórnlaus,“ sagði Mourinho.

„Ef annað hvort liðið hefði náð betri stjórn, sýnt meiri skynsemi og spilaði taktískara þá hefði það unnið leikinn,“ sagði Mourinho en það má sjá hvað hann sagði hér fyrir neðan.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×