Innlent

Kröfu landeigenda á Seljanesi hafnað

Kristján Már Unnarsson skrifar
Vinnuvélar á vegum Vesturverks við lagfæringu á vegslóðanum í norðanverðum Ingólfsfirði  í lok júlímánaðar. Seljanes er við mynni fjarðarins að norðanverðu.
Vinnuvélar á vegum Vesturverks við lagfæringu á vegslóðanum í norðanverðum Ingólfsfirði í lok júlímánaðar. Seljanes er við mynni fjarðarins að norðanverðu. Vísir/KMU.
Samgönguráðuneytið hefur hafnað kröfu Guðmundar Arngrímssonar, fyrir hönd hluta landeigenda eyðijarðarinnar Seljaness í Árneshreppi, um að ákvörðun Vegagerðarinnar um að fela Vesturverki ehf. veghald Ófeigsfjarðarvegar yrði felld úr gildi. Vestfirski fréttamiðillinn Bæjarins besta greinir frá þessu. 

Endurbætur vegslóðans um Ingólfsfjörð og Ófeigsfjörð um Seljanes eru liður í byrjunarframkvæmdum vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar. Fyrr í sumar hafði Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnað því að stöðva vegaframkvæmdirnar til bráðabirgða eftir að landeigendur kærðu framkvæmdaleyfið sem Árneshreppur veitti Vesturverki.

Fjallað var um vegagerðina í frétt Stöðvar 2 í síðustu viku.

Frá Seljanesi. Jörðin er á nesinu milli Ófeigsfjarðar og Ingólfsfjarðar.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Á vef Bæjarins besta kemur fram að það sé niðurstaða Samgönguráðuneytisins að Ófeigsfjarðarvegur sé landsvegur og að Vegagerðin fari með veghaldið. Ennfremur að upptaka vegarins í tölu þjóðvega hafi verið í samræmi við gildandi málsmeðferð. 

Þá komi fram í úrskurði Samgönguráðuneytis að veghaldara sé heimilt að vinna að endurbótum á veginum á 12 metra breiðu svæði, sex metra út frá miðju vegarins í hvora átt.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2 af vegagerðinni frá því fyrr í sumar: 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×