Jón Guðni Fjóluson stóð vaktina í vörn Krasnodar sem vann 2-0 sigur á FC Arsenal Tula í rússnesku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.
Krasnodar er eftir sigurinn í 4. sæti deildarinnar með 23 stig, en liðin í sætum tvö til fjögur eru öll með 23 stig. CSKA er á toppnum með 25 stig.
Hjörtur Hermannsson var ónotaður varamaður er Bröndby hélt áfram slæmu gengi sínu er liðið tapaði 2-1 fyrir SönderjyskE.
Ísak Óli Ólafsson var ónotaður varamaður hjá SönderjyskE og Eggert Jónsson var ekki í hópnum vegna meiðsla.
Bröndby er í 6. sætinu með 16 stig en Sönderjyske tveimur sætum neðar með einu stigi minna.
Arnór Ingvi Traustason spilaði í 72 mínútur er Malmö vann 1-0 sigur á Eskilstuna á útivelli í Svíþjóð. Sigurmarkið kom átta mínútum fyrir leikslok.
Guðmundur Þórarinsson var tekinn af velli á lokamínútunni er Norrköping vann 2-0 sigur á Falkenbergs á útivelli.
Malmö er á toppi sænsku deildarinnar með 56 stig en Djurgården á leik til góða gegn Östersunds á morgun. Norrköping er í 5. sætinu.
Í Noregi spilaði Arnór Smárason síðari hálfleikinn er Lilleström tapaði 2-1 fyrir toppliði Molde. Lilleström er í tíunda sætinu er sex umferðir eru eftir.
Aron Elís Þrándarson, Davíð Kristján Ólafsson og Daníel Leó Grétarsson spiluðu allir allan leikinn fyrir Álasund sem gerði 2-2 jafntefli við Ull/Kisa í norsku B-deildinni.
Álasund er komið með annan fótinn upp í norsku úrvalsdeildina en liðið er með tólf stiga forskot á Start sem er í 3. sætinu er fimm leikir eru eftir. Tvö efstu liðin fara beint upp í úrvalsdeildina.
