„Það er nóg að gera og nú er staðan sú að við höfum átt í samtali síðan í vor. Þetta hefur sannarlega tekið langan tíma en okkur hefur miðað áfram,“ segir Sverrir Jónsson, formaður samninganefndar ríkisins (SNR) um stöðuna í kjaraviðræðum.
Samningar allra opinberra starfsmanna hafa verið lausir frá því í vor en þar á meðal eru rúmlega tuttugu þúsund ríkisstarfsmenn. Samninganefnd ríkisins vinnur nú að gerð rúmlega 70 kjarasamninga en stéttarfélögin sem eru á bak við þá eru enn fleiri.
BSRB ákvað í vikunni að slíta viðræðum sínum við SNR og vísa deilunni til ríkissáttasemjara. Helsta ágreiningsefnið er stytting vinnuvikunnar en BSRB sættir sig ekki við tilboð stjórnvalda í þeim efnum.
„Sumum hentar að stytta hvern dag, öðrum hentar að hætta fyrr á föstudögum og svo eru einhverjir sem hafa gagn af auknum sveigjanleika. Okkar upplegg er að það sé verið að bæta starfsumhverfið og tillaga okkar gengur út á það að vinnustaðir, starfsfólk og stjórnendur sjálfir, útfæri vinnutímann í nærumhverfinu,“ segir Sverrir.
Að sögn Sverris standa viðræður við aðra hópa á svipuðum stað. Áfram verði fundað með BHM í vikunni og þeirri næstu en þar að auki sé í gangi gott samtal við Félag hjúkrunarfræðinga, Læknafélagið, Kennarafélag Íslands og fleiri hópa.
Í greinargerð fjárlagafrumvarpsins er miðað við þær forsendur að laun ríkisstarfsmanna hækki að meðaltali um fjögur prósent á árinu og um þrjú prósent á því næsta. Byggir það mat á samningum á almennum vinnumarkaði.
„Tilboð samninganefndar ríkisins er ekki lakara en það sem gengur og gerist á vinnumarkaði um þessar mundir. Hvort sem það varðar vinnutíma eða önnur atriði,“ segir Sverrir.

