Erlent

Reyndu að fela upplýsingar um símtal Trump og Zelensky

Samúel Karl Ólason skrifar
Volodomyr Zelensky og Donald Trump.
Volodomyr Zelensky og Donald Trump. EPA/Forsetaembætti Úkraínu
Leyniþjónustunefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings hefur birt svokallaða uppljóstrarakvörtun sem leitt hefur til þess að Demókratar á þingi hafa hafið formlegt ákæruferli á hendur Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.

Kvörtunin var lögð fram þann 12. ágúst af starfsmanni leyniþjónustu Bandaríkjanna til innri endurskoðenda leyniþjónusta Bandaríkjanna. Innri endurskoðandinn, Michael Atkinson sem skipaður var í embætti af Trump, tók málið til skoðunar og ákvað að kvörtunin væri trúverðug og að málið væri „aðkallandi áhyggjuefni“.

Hingað til hefur Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna þó komið í veg fyrir að leyniþjónustumálanefndir þingsins fengju kvörtunina, eins og lög segja til um. Kvörtunin snýr einnig að William Barr, dómsmálaráðherra.

Bað Zelensky um að rannsaka Biden

Málið snýr að miklu leyti að símtali Trump og Volodomyr Zelensky, forseta Úkraínu, og það að Trump bað Zelensky um að opna rannsókn gegn Joe Biden, pólitískum andstæðingi sínum, og syni hans Hunter Biden. Skömmu fyrir símtalið hafði Trump komið í veg fyrir að hundruð milljóna dala neyðaraðstoð bærist til Úkraínu.

Samkvæmt uppljóstraranum reyndu starfsmenn Hvíta hússins að fela upplýsingar um símtalið. Hann sagði það til marks um það að starfsmenn Trump gerðu sér grein fyrir því hve alvarlegt málið væri.

Sjá einnig: Allt sem þú þarft að vita um hið formlega ákæruferli á hendur forseta Bandaríkjanna

„Við störf mín hef ég fengið upplýsingar frá nokkrum embættismönnum um að forseti Bandaríkjanna sé að nýta stöðu sína til að fá hjálp frá erlendur ríki í forsetakosningunum 2020. Sú hjálp felur meðal annars í sér þrýsting á erlent ríki til að rannsaka pólitískan andstæðing forsetans. Rudy Giuliani, einkalögmaður Trump, eru lykil-aðili að málinu. William Barr, dómsmálaráðherra, virðist einnig koma að því,“ skrifaði uppljóstrarinn í kvörtunina, sem sjá má hér.

Þó er búið að hylja upplýsingar í þessari útgáfu kvörtunarinnar en háttsettir þingmenn beggja flokka hafa fengið að sjá fulla útgáfu hennar.

Rudy Giuliani, einkalögmaður Donald Trump.AP/Jason DeCrow
Uppljóstrarinn sagðist ekki hafa orðið vitni að mörgum atvikum sem hann vísar til heldur hafi hann fengið upplýsingar hjá öðrum starfsmönnum ríkisstjórnarinnar og að þeim hafi ekki þótt hegðun forsetans vera í lagi. Hann sagði þá hafa sagt honum að lögmenn Hvíta hússins væru að ræða sín á milli hvernig taka ætti á símtalinu, því þeir hafi líklega orðið vitni að því að forsetinn hefði misnotað vald sinn í eigin hag.

Færðu uppritið í leynilegt tölvukerfi

Í kvörtuninni kemur einnig fram þegar að ýmsir embættismenn hafi sagt að ekki yrði af öðru símtali eða fundi á milli Trump og Zelensky ­nema úkraínski forsetinn hlýddi beiðni Trump.

Uppljóstrarinn skrifaði að honum hefði borist upplýsingar um að háttsettir starfsmenn Hvíta hússins hafi gripið inn í og reynt að koma höndum yfir allar upplýsingar um símtalið á milli Trump og Zelensky og þá sérstaklega opinberu uppriti þess, eins og hefð er fyrir að skrifa.

Samkvæmt uppljóstraranum var starfsmönnum skipað að fjarlægja upprits-skjal úr tölvukerfinu þar sem slík upprit eru iðulega geymd og færa skjalið í annað tölvukerfi sem inniheldur að mestu leynilegt og viðkvæm gögn.



Sendiherrar ráðlögðu Zelensky

Hann skrifaði sömuleiðis í kvörtun sína að degi eftir að forsetarnir ræddu saman, eða þann 26. júli, hafi Kurt Volker, sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu, og Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Evrópusambandinu, hafi fundað með Zelensky. Á þeim fundi hafi sendiherrarnir ráðlagt úkraínska forsetanum hvernig hann gæti orðið við beiðni Trump um að rannsaka Biden.

Þann 2. ágúst ferðaðist Rudy Giuliani, einkalögmaður Trump, til Madrídar þar sem hann fundaði með Andreiy Yermak, ráðgjafa Zelensky. Embættismenn sem uppljóstrarinn ræddi við sögðu Giuliani hafa ætlað að fylgja eftir beiðni Trump. Þar að auki hafi Giuliani rætt við fjölda embættismanna í Úkraínu vegna málsins.


Tengdar fréttir

Segir Trump hafa hagað sér eins og mafíósi

Adam Schiff, þingmaður Demókrataflokksins, segir gróft upprit Hvíta hússins af samtali Donald Trump, forseta, og Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, sýna Trump hafa hagað sér eins og mafíósi.

Trump bað Zelensky um að rannsaka Biden

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, bað Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, um að starfa með William Barr, dómsmálaráðherra, og Rudy Giuliani, einkalögmanni sínum, til að rannsaka Joe Biden, pólitískan andstæðing sinn, og son hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×