Enski boltinn

Hafa skorað 35 mörk í átta leikjum gegn Watford síðan Guardiola tók við

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bernardo Silva, Sergio Agüero og David Silva skoruðu allir gegn Watford á laugardaginn var.
Bernardo Silva, Sergio Agüero og David Silva skoruðu allir gegn Watford á laugardaginn var. vísir/getty
Síðan Pep Guardiola tók við Manchester City hefur liðið haft sérstaklega gaman að því að níðast á Watford.

Á laugardaginn rúllaði City yfir Watford, 8-0. Þetta er næststærsti sigur liðs í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Metið er í eigu Manchester United sem vann Ipswich Town, 9-0, 1995.

City og Watford mættust í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar á síðasta tímabili. City vann þá 6-0 sigur.

Síðan Guardiola tók við City sumarið 2016 hefur liðið unnið alla átta leikina gegn Watford. Í þessum átta leikjum hefur City skorað 35 mörk, eða 4,4 mörk að meðaltali í leik. Watford hefur aftur á móti aðeins skorað þrjú mörk í leikjunum átta.

City hefur gengið afar vel með Watford undanfarin ár. Fara þarf aftur til ársins 1989 til að finna síðasta sigur Watford á City.

Sergio Agüero kann sérstaklega vel við sig gegn Watford en hann hefur skorað ellefu mörk í átta leikjum gegn Lundúnaliðinu, þ.á.m. tvær þrennur.

City er í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 13 stig, fimm stigum á eftir toppliði Liverpool. Watford er með tvö stig á botni deildarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×